Laun kvenna lækka

Konur fá 19% lægri laun en karlar meðal viðskipta- og …
Konur fá 19% lægri laun en karlar meðal viðskipta- og hagfræðinga. mbl.is/Golli

Laun kvenna lækka í nýrri kjarakönnun Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Lækkunin nemur 1,9% en á heildina litið hækka laun félagsmanna í FVH um 0,7%.

Miðgildi heildarmánaðarlauna viðskiptafræðinga og hagfræðinga mælist nú 606 þúsund kr. sem er hækkun um 0,7% frá því á sama tíma í fyrra. Hækkun launa nú er talsvert minni en í fyrri mælingum. Í síðustu könnun höfðu laun hækkað um 3% á milli ára en þar á undan um 8%.

„Athygli vekur að í fyrsta sinn lækka laun kvenna. Lækkunin nemur 1,9% og er miðgildi þeirra nú 554 þúsund kr. Laun karla halda áfram að hækka og nemur hækkunin í ár um 1,7%. Miðgildið er nú 661 þúsund kr. á mánuði. Þegar ekki er tekið tillit til annarra þátta mælast því karlar með 19% hærri laun en konur.

Þegar launamunur kynjanna er svo leiðréttur með tilliti til fleiri þátta eins og aldurs, fjölskyldustærðar, menntunar, starfsreynslu, starfsvettvangs og geira kemur í ljós að launamunur kynjanna eykst frá fyrri mælinum. Nú mælist leiðréttur launamunur 4,3% en var 3,2% árið 2010," segir í tilkynningu frá FVH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert