Sprakk á nefhjóli í lendingu

Mynd úr myndasafni. Flugfélagið Ernir notar meðal annars Jetstream flugvélina …
Mynd úr myndasafni. Flugfélagið Ernir notar meðal annars Jetstream flugvélina sem sést á myndinni, en vélin sem sprakk á í dag var af gerðinni Cessna Caravan.

Dekk sprakk á flugvél flugfélagsins Ernis í lendingu á Reykjavíkurflugvelli í dag. Vélin, sem er af gerðinni Cessna Caravan 2, var að koma frá Bíldudal og var með nokkra farþega innanborðs. Engum varð meint af.

Það var dekk á nefhjóli sem sprakk, við fyrstu snertingu við brautina, að sögn Ásgeirs Þorsteinssonar, sölu- og markaðsstjóra hjá Erni. Það hafði þó að hans sögn ekki áhrif á lendinguna, að því leyti að flugvélinni hlekktist ekki á heldur hélt hún stefnu sinni. Þetta hefur hann eftir flugmanninum, sem hann hafði rætt við þegar mbl.is náði tali af honum.

Að sögn Ásgeirs voru veðuraðstæður og aðstæður á brautinni góðar þegar atvikið átti sér stað. Ekki er vitað hvers vegna dekkið sprakk en verið er að skoða það. Einnig er verið að skoða vélina og skipta um dekk, en að sögn Ásgeirs er áætlað að vélin fari aftur að fljúga strax í dag.

Slökkviliðið á vellinum kom til aðstoðar þegar vélin hafði staðnæmst og aðstoðaði við að koma henni af brautinni. Bíll kom sömuleiðis til að sækja farþegana og þeir voru færðir að flugstöðvarbyggingunni.

Cessna Caravan er tveggja hreyfla skrúfuþota með tvo í áhöfn og tekur níu farþega.

mbl.is