Ónýtar öryggismyndavélar

Hjónin voru á leið heim þegar árásin átti sér stað.
Hjónin voru á leið heim þegar árásin átti sér stað. Sverrir Vilhelmsson

Hjón, sem urðu fyrir líkamsárás í miðborginni nýlega, segjast undrandi á því að hafa fengið þau svör hjá lögreglu að flestar þær öryggismyndavélar sem settar voru upp í miðborginni séu ónýtar. Vegna þess séu litlar líkur á að mál þeirra upplýsist.

Fólkið vill ekki koma fram undir nafni en var mjög brugðið eftir atvikið og samþykkti konan að segja sögu sína gegn nafnleysi.

Hjónin voru ásamt öðru pari á leið sinni yfir göngugötuna á Austurstræti að næturlagi aðfaranótt sunnudags, þegar þrír menn koma gangandi á móti þeim og einn þeirra rekst utan í manninn. „Maðurinn minn spyr bara hvort það sé ekki allt í lagi og fær þá um leið einn á kjaftinn. Hann fattar strax hvað er að gerast og hleypur í áttina að Hressó en þeir elta og ná honum niður,“ segir konan.

Hún brást strax við með því að taka upp símann og hugðist hringja í lögreglu en kallaði á sama tíma til fólks í kringum sig um aðstoð. Enginn kom hins vegar til hjálpar. Vinaparið reyndi að hjálpa manninum og svo var þetta allt í einu yfirstaðið, segir hún.

„Þetta gerðist ofboðslega snöggt og svo allt í einu hætta þeir og hlaupa í burtu,“ segir konan. Áður létu þeir spörkin þó dynja á manninum, sem reyndi að verja höfuð sitt með höndunum og endaði með báða úlnliði brotna, brotið úr a.m.k. fimm tönnum, brákuð rifbein og sára vöðva.

Verður sennilega aldrei upplýst

Fólkið tók leigubíl á bráðamóttökuna í Fossvogi þar sem lögreglumaður á vakt sagði þeim að árásir af þessu tagi væru því miður ekki óalgengar. „Þegar við förum svo að klára skýrsluna nokkuð seinna sagði lögreglumaðurinn sem við töluðum við að honum þætti það afar leitt en myndavélarnar væru því miður bilaðar og því væru ekki til myndir af atvikinu,“ segir konan. Málið yrði því sennilega aldrei upplýst.

Konan segir þau hjónin miður sín eftir reynsluna og að þau hafi fengið áfallahjálp í kjölfarið. Hún segir að sennilega muni tíminn hjálpa til við að græða sárin en eins og sakir standa myndi hún ekki voga sér niður í miðbæ að nóttu til.

Snýst óneitanlega um peninga

mbl.is