Snýst óneitanlega um peninga

Öryggismyndavél.
Öryggismyndavél. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir það rétt að af þeim 8 myndavélum sem upphaflega voru settar upp í miðborginni árið 1997 séu aðeins 2 eða 3 enn í lagi.

Mbl.is sagði frá því í dag að hjónum, sem urðu fyrir líkamsárás í miðbænum nýlega, var brugðið þegar þeim var tjáð að vegna þess að vélarnar væru bilaðar yrði mál þeirra sennilega aldrei upplýst.

„Við höfum verið í viðræðum við borgaryfirvöld um að koma þessu í lag, því það skiptir miklu máli að þetta sé í lagi,“ segir Stefán en nokkur tími sé liðinn frá því að fyrsta vélin datt út og viðræðurnar hafi gengið hægar en vonir stóðu til.

Vélarnar hafi upphaflega verið settar upp samkvæmt samkomulagi fjögurra aðila; Reykjavíkurborgar, dómsmálaráðuneytisins, lögreglunnar í Reykjavík og Pósts og síma, en síðan hafi margt breyst.

Óneitanlega snúist málið um peninga; bæði uppsetningarkostnaðinn og rekstrarkostnaðinn, sem sé nokkur.

Stefán segir að búið sé að taka niður þær myndavélar sem ekki virki og því ættu þær ekki að vekja falskt öryggi.

„Þetta skerðir klárlega öryggi þeirra sem eru í miðborginni, að þessar myndavélar hafi dottið út ein af annarri,“ segir hann en lögregla sé þó með fasta viðveru í bænum um helgar. Hann segir borgaryfirvöld hafa málið til umfjöllunar.

Vélarnar átta náðu yfir eftirtalda staði: Lækjartorg, Hafnarstræti, Austurstræti, Austurvöll, Ingólfstorg, Geirsgötu, Tryggvagötu og Lækjargötu.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um myndavélarnar frá 2007 kom m.a. fram að vélarnar, sem höfðu þá verið uppi í um tíu ár, hefðu margsannað gildi sitt og reynst mikilvægar við rannsókn margra mála.

Ónýtar öryggismyndavélar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert