Vilja Vaðlaheiðargöng á áætlun

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir mbl.is/Ómar Óskarsson

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar telur af þeim gögnum sem liggja fyrir, að Vaðlaheiðargöng geti ekki staðið undir sér sjálf. Mörg verkefni séu brýnni og leggur nefndin til að göngin fari á samgönguáætlun. Bygging ganganna sé of mikil áhætta fyrir skattgreiðendur og hið opinbera.

„Við vorum sammála um að Vaðlaheiðargöng væru jákvætt samgönguverkefni. En um leið voru allir einhuga um að önnur samgönguverkefni væru miklu brýnni um allt land,“ segir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, VG, formaður umhverfis- og samgöngunefndar

Guðfríður Lilja er ein þeirra sex nefndarmanna sem telja að göngin eigi að fara á samgönguáætlun. Ólína Þorvarðardóttir, Mörður Árnason, Ásmundur Einar Daðason,  Atli Gíslason og Birgir Ármannsson voru henni sammála, auk Þórs Saari, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni.

Á móti voru Þuríður Backman og Róbert Marshall. Árni Johnsen sat hjá.

„Við höfðum til umsagnar skýrslurnar sem hafa verið gerðar um málið,“ segir Guðfríður Lilja. „Ef bara er verið að tala um gangagerð, þá eru Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng miklu brýnni, auk ýmissa samgönguverkefna um land allt. En þetta verkefni er sérstakt, vegna þess að það hefur ekki verið á samgönguáætlun og það átti að ráðast í það vegna þess að það stæði undir sér sjálft.“

Ekki hafið yfir vafa

Guðfríður Lilja segir það vera skyldu nefndarinnar að skoða hvort sú forsenda gæti haldist. Meirihlutinn hafi talið að svo væri ekki. „Meirihluti nefndarinnar telur að þessi grunnforsenda sé langt frá því að vera hafin yfir eðlilegan vafa og að ríkir óvissu- og áhættuþættir séu varðandi hana. Í reynd er öll áhættan varðandi þessa framkvæmd á skattgreiðendum og ríkinu.“

Guðfríður Lilja segir eðlilegt að göng um Vaðlaheiði verði inni á samgönguáætlun, eins og önnur samgönguverkefni á landinu og að framkvæmdinni verði raðað þar í forgangsröð á jafnræðisgrundvelli.

Undirbúningsvinnan nýtist áfram

„En það er enginn að segja að Vaðlaheiðargöng geti ekki litið dagsins ljós. Sú undirbúningsvinna, sem búið er að vinna, nýtist áfram.“

Nefndin skrifaði álit og sendi til fjármálaráðherra og fjárlaganefndar Alþingis. „Þar rekjum við málið og okkar niðurstöður. Framhaldið verður síðan að koma í ljós og á endanum verður afstaða í málinu tekin af fleirum en okkur.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert