Evróvisjón í skugga kúgunar?

Margir hafa áhyggjur af stöðu mannréttindamála í Aserbaídsjan.
Margir hafa áhyggjur af stöðu mannréttindamála í Aserbaídsjan. www,mbl.is

Senn líður að hinni árlegu Evróvisjónkeppni. Nokkur styr stendur um keppnina í ár, sem verður haldin í Aserbaídsjan, en þar þykir pottur víða brotinn í mannréttindamálum. Mannréttindasamtök segja tjáningar- og félagafrelsi takmarkað og samkynhneigðir Aserar sæta áreitni lögreglu og stjórnvalda.

Aserbaídsjan er ekki í fréttum hér á landi á hverjum degi, en söngvakeppnin hefur beint athygli Evrópuþjóða að mannréttindabrotum og kúgun ríkisstjórnar Aserbaídsjans sem hefur notað stórauknar olíutekjur sínar til að herða tökin á landinu. En hvar er Aserbaídsjan, eigum við að láta mannréttindabrot hafa áhrif á þátttöku okkar í keppni á borð við Evróvisjón og í hverju felast þessi brot?

Auðugt að olíu og fyrrverandi sovétlýðveldi

Aserbaídsjan var áður eitt af lýðveldum Sovétríkjanna, en hlaut sjálfstæði árið 1991 þegar þau liðuðust í sundur. Landið er í suðausturhluta Kákasusfjalla, við Kaspíahaf á mörkum Evrópu og Asíu og á landamæri að Íran, Armeníu, Georgíu og Rússlandi. Nokkurn tíma hefur tekið fyrir landið að rétta úr kútnum eftir sovétstjórnina, en undanfarin ár hafa orðið miklar efnahagsframfarir í landinu og Alþjóðabankinn útnefndi það sem það land sem hefði tekið mestum efnahagsframförum árið 2008.

Íbúar Aserbaídsjans eru rúmar níu milljónir og flestir þeirra múslímar. Landið háði stríð við Armeníu um héraðið Nagorno-Karabak eftir hrun Sovétríkjanna og um 30.000 manns lágu í valnum. Forseti landsins heitir Ilham Aliyev og hefur hann verið í embætti frá árinu 2003. Hann tók við af föður sínum, sem var forseti næstu tíu árin á undan. Þegar Aliyev var kosinn sögðu fulltrúar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, að kosningarnar hefðu síður en svo verið lýðræðislegar. Nokkuð var um mótmæli í landinu í kjölfar kosninganna og beitti lögregla þá valdi til að kveða þau niður.

Aserbaídsjan er auðugt að olíu og sömdu ráðamenn landsins við olíurisann BP um að leggja olíuleiðslu frá Kaspíahafi til Evrópuríkja. Mikill hagvöxtur hefur því verið í Aserbaídsjan síðustu árin. 

Um leið og ljóst var að Aserar hefðu borið sigur úr býtum í Evróvisjón heyrðust gagnrýnisraddir um að keppnin skyldi haldin í landi, þar sem ástand mannréttindamála er svo bágborið. Ekki dró úr gagnrýnisröddunum þegar fregnir bárust af því að íbúar borgarinnar Bakú hefðu þurft að yfirgefa heimili sín til að rýma svæði fyrir Kristalshöllina, sem á að hýsa keppnina. Fólkinu voru boðnar bætur fyrir hús sín, en þær munu ekki duga til að koma öðru þaki yfir höfuðið.

Ógeðslegt að vera glamúrös í Kristalshöll

Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson er einn þeirra sem hefur tjáð sig um ástand mannréttindamála í Aserbaídsjan. „Afstaða mín er einföld. Ísland á að draga sig útúr Eurovision keppninni í Bakú í Aserbaídsjan. Mannréttindi í fyrsta sæti - Eurovision í öðru sæti. Það er gaman að vera glamúrös - en það er ógeðsleg tilhugsun að vera glamúrös í Kristalshöll sem er byggð á jafn ljótum grunni og með jafn viðbjóðslegri forsögu,“ segir Páll Óskar á Facebooksíðu sinni.

Páll Magnússon útvarpsstjóri var spurður í síðdegisútvarpi Rásar tvö í dag hvort hann hygðist aflýsa þátttöku Íslands í keppninni. Þar sagðist Páll ekki hafa tekið neina ákvörðun um það, en benti á að ef Evróvisjón væri ekki haldin í landinu, þá hefði aldrei verið vakin jafn mikil athygli á stöðu mannréttindamála.

Páll Óskar skoraði þar á Páll Magnússon að aflýsa þátttöku Íslands í keppninni. 

Hafa áhyggjur af tjáningarfrelsi og félagafrelsi

Landið er álitið á meðal spilltustu ríkja heims og er í 143. sæti á lista yfir þau lönd þar sem gagnsæi er mest í stjórnarháttum. Landið þykir því meðal spilltustu ríkja heims, þar sem stjórnarhættir eru ógagnsærri en í Úganda, Íran, Sýrlandi og Pakistan, svo dæmi séu tekin.

„Helstu áhyggjuefni Amnesty varðandi Aserbaídsjan varða tjáningarfrelsi og félagafrelsi,“ segir Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Amnesty á Íslandi. „Fólk á á hættu að vera varpað í fangelsi ef það gagnrýnir yfirvöld.“ Jóhanna nefnir sem dæmi að samtökin séu nú að vinna fyrir 16 samviskufanga, sem voru handteknir vegna mótmæla fyrir tæpu ári.

Þá gengu hundruð mótmælenda um götur höfuðborgarinnar Bakú í mars og apríl 2011 og kröfðust lýðræðislegra umbóta og aukinnar virðingar við mannréttindi. Yfirvöld svöruðu með því að banna mótmæli og áreita og handtaka bloggara og baráttufólk.

„Það er til dæmis mjög erfitt að fá að skrá óháð félagasamtök í Aserbaídsjan og sömuleiðis erfitt fyrir trúarhópa að fá að skrá sig. Það er mikið eftirlit með félagasamtökum í landinu,“ segir Jóhanna.

Hún segir að núna í aðdraganda Evróvisjón hafi verið sett í gang herferð í landinu við að fegra höfuðborgina Bakú. Íbúðarhús hafi verið rifin, meðal annars til að rýma fyrir glæsihöll sem byggð er til að hægt verði að halda keppnina og dæmi um að fólk hafi verið borið út af heimilum sínum. „Það skýtur skökku við að þeir séu að byggja glæsihöll til að leyfa röddum Evrópu að hljóma, en kæfa raddir eigin borgara,“ segir Jóhanna.

Dregur athygli að mannréttindamálum

Yfirvöld í Aserbajdsjan eru staðráðin í að bæta ímynd sína með því að halda risavaxinn skemmtiviðburð á borð við Evróvisjón. „En þau átta sig ekki á því að keppnin dregur athygli að stöðu mannréttindamála í landinu,“ segir Giorgi Gogia, sem starfar með mannréttindasamtökunum Human Rights Watch, í samtali við AFP-fréttastofuna.

„Þessi viðburður mun hafa mjög jákvæð áhrif á hugmyndir fólks um landið,“ sagði Abulfas Garayev, menningar- og ferðamálaráherra landsins, við AFP-fréttastofuna. Yfirvöld neita því að hafa borið fólk af heimilum sínum til að rýma fyrir Kristalshöllinni. Þau segja að framkvæmdirnar hefðu hvort sem er verið fyrirhugaðar og að þær tengist Evróvisjón ekki neitt.

Samkynhneigðir sæta ofsóknum og eru þaggaðir niður

Samtök samkynhneigðra hafa áhyggjur af mannréttindabrotum gegn hommum og lesbíum í Aserbaídsjan. „Staða samkynhneigðra er mjög bágborin víða í Austur-Evrópu,“ segir Árni Grétar Jóhannsson, framkvæmdastjóri samtakanna '78. „Þetta er líklega búið að vera svona lengi, en núna fær Aserbaídsjan kastljósið á sig vegna Evróvisjón og þess vegna verður þetta allt í einu svona opinbert. Annars held ég að almenn staða mannréttindamála sé víða mjög slæm í löndum í þessum heimshluta, ekki bara þarna, því miður.“

Að sögn Árna eru að öllum líkindum engin opinber samtök hinsegin fólks í Aserbaídsjan. Þar sé mikil þöggun og samkynhneigð ekki viðurkennd. „Þetta er talið með frjálslyndustu múslímalöndunum, en samt er fólk í felum með þetta. En það er ekki ólöglegt að vera hinsegin, það var tekið út árið 2001. “

Árni segir að samkynhneigðir Aserar verði fyrir ofbeldi og áreiti af hendi lögreglu og yfirvalda. Hann segir þetta að mörgu leyti sérstætt fyrir Evrópuland, en að vísu sé ástandið víða erfitt í mörgum löndum Austur-Evrópu og fyrrverandi austantjaldslöndum, þar sem tjáningarfrelsi hinsegin fólks sé takmarkað og því meinað að halda hinsegin göngur.

Hann segir í ljósi þessa ankannalegt að yfirvöld í Aserbaídsjan skuli hafa séð sérstaka ástæðu til að taka fram að samkynhneigðir þyrftu ekki að óttast um sinn hag ef þeir kæmu til landsins til að fylgjast með Evróvisjón. „En það er tekið fram að þetta gildi bara um gesti landsins, ekki heimafólk,“ segir Árni.

Frá Bakú, höfuðborg Aserbaídsjan.
Frá Bakú, höfuðborg Aserbaídsjan. www .eurovision.tv
Frá Bakú, höfuðborg Aserbaídsjan.
Frá Bakú, höfuðborg Aserbaídsjan. www .eurovision.tv
Merki Evróvisjón 2012.
Merki Evróvisjón 2012. www .eurovision.tv
Bygging Kristalshallarinnar umdeildu.
Bygging Kristalshallarinnar umdeildu. www .eurovision.tv
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert