Framkvæmdir hafnar við nýja stúdentagarða

Páll Hjaltason og Lilja Dögg Jónsdóttir hafa formlega hafið framkvæmdir …
Páll Hjaltason og Lilja Dögg Jónsdóttir hafa formlega hafið framkvæmdir við nýju stúdentagarðana. mbl.is/Sigurgeir S.

 Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, og Lilja Dögg Jónsdóttir, fulltrúi stúdenta við Háskóla Íslands, hafa tekið saman höndum og hafið formlega framkvæmdir við nýja stúdentagarða Félagsstofnunar stúdenta á lóð Vísindagarða Háskóla Íslands. Var það gert við athöfn kl. 15 í dag.

Verkefnið er stærsta byggingaframkvæmd á höfuðborgarsvæðinu frá hausti 2008, segir í fréttatilkynningu. Reiknað er með að hún muni skapa um 300 ársverk en kostnaður verður um 3 milljarðar.

Á görðunum munu rísa fjögur hús, alls um 12.000 m2, með 297 íbúðum fyrir pör og einstaklinga. Um byggingu húsanna sér Sveinbjörn Sigurðsson hf. en arkitektar eru Hornsteinar ehf.

Ein meginkrafan sem sett var við hönnun húsanna af hálfu FS og Reykjavíkurborgar var að þau yrðu ólík í útliti til að skapa fjölbreytni og féllu vel að umhverfinu. Mikið tillit var tekið til umhverfisins og nágrannabyggðar við hönnunina enda um áberandi stað að ræða í hjarta borgarinnar.

Sem fyrr segir verða garðarnir á lóð Vísindagarða HÍ og eru þeir fyrstu húsin sem rísa á lóðinni. Markmið Vísindagarða verður að efla samstarf milli atvinnulífs, rannsóknastofnana og Háskólans en fyrirmynd að Vísindagörðum er sótt til Evrópu og Bandaríkjanna þar sem uppbygging slíkra garða hefur verið mikil.

Gert er ráð fyrir að fyrri áfanga verksins ljúki í lok júlí 2013 en að framkvæmdum ljúki í heild í árslok 2013. Nýju íbúðirnar munu verða stúdentum kærkomnar því um 600 voru á biðlista eftir húsnæði í haust að úthlutun lokinni.

Leigueiningar á Stúdentagörðum FS eru í dag rúmlega 800 og hýsa um 1.500 manns, þ.e. stúdenta við HÍ og fjölskyldur þeirra.

Stefna FS er að halda uppbyggingu Stúdentagarða áfram þar til allir stúdentar sem kjósa að búa á görðum eiga þess kost. Talið er að FS þurfi að eiga húsnæði fyrir um 15% stúdenta við HÍ eða rúmlega 2.000 íbúðir til að uppfylla þarfir næstu árin.

Nýju stúdentagarðarnir verða fjármagnaðir að 90% hluta með lánum frá Íbúðalánasjóði samkvæmt fjárheimild sem ríkisstjórnin veitti síðastliðið sumar en það sem á vantar leggur FS til.

Lilja Dögg Jónsdóttir, fulltrúi stúdenta HÍ, fagnar byggingu nýrra stúdentagarða.
Lilja Dögg Jónsdóttir, fulltrúi stúdenta HÍ, fagnar byggingu nýrra stúdentagarða. mbl.is/Sigurgeir S.
Páll Hjaltason formaður skipulagsráðs Reykjavíkur á lóð nýju garðanna.
Páll Hjaltason formaður skipulagsráðs Reykjavíkur á lóð nýju garðanna. mbl.is/Sigurgeir S.
mbl.is