Ormasmit í hundum

Þrír hundar greindust nýverið með þráðorm
Þrír hundar greindust nýverið með þráðorm AP

Þráðormur greindist í þremur hundum á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Tveir hundanna komu nýlega frá hundabúinu á Dalsmynni á Kjalarnesi. Við frekari rannsókn kom í ljós að ormasmit er að finna í nær 50% þeirra sýna sem voru tekin að Dalsmynni. Greint er frá þessu á vef Matvælastofnunar.

Í síðustu viku greindist þráðormurinn Strongyloides stercoralis í þremur hundum á höfuðborgarsvæðinu. Greiningin var gerð á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum. Tveir þeirra komu nýlega frá hundabúinu á Dalsmynni á Kjalarnesi. Eigendum hundabúsins hafa verið gefin fyrirmæli um bann við frekari afhendingu hunda frá búinu þar til staðfest hefur verið að smit er ekki lengur til staðar.

Rannsókn á saursýnum úr hundum á hundabúinu leiddi í ljós að þetta ormasmit er að finna í nær 50% þeirra sýna sem þar voru tekin. Tekið skal fram að ekki ber á sýnilegum veikindum hjá hundunum á Dalsmynni og hundar búsins hafa verið ormahreinsaðir reglulega af dýralækni búsins, segir á vef Matvælastofnunar.

Fyrsta skipti sem þessi tegund finnst í hundum utan einangrunarstöðvar

Þetta er í fyrsta sinn sem Strongyloides stercoralis finnst í hundum hér á landi utan einangrunarstöðvar. Ormurinn hefur aftur á móti greinst nokkrum sinnum í innfluttum hundum á einangrunarstöð, í fyrsta skipti árið 2008. Þeir hundar fengu meðhöndlun, saursýni voru síðan tekin við útskrift úr einangruninni og aftur einum og sex mánuðum eftir heimkomu, þrjú sýni í hvert skipti. Einnig hafa verið tekin sýni úr öðrum hundum á heimilinu ef svo hefur borið undir.

Ekki er vitað hvernig þeir hundar sem nú um ræðir hafa sýkst af orminum en könnun á málinu fer nú fram á vegum héraðsdýralæknisins í Suðvesturumdæmi og ráðstafanir verða gerðar til þess að koma í veg fyrir að þessi ormur berist með hundum frá hlutaðeigandi hundabúi.

Ekki hægt að útiloka smit í mönnum

„Tekið skal fram að ekki er vitað um smit af þessum ormi í hundum hjá öðrum hundaeigendum á Íslandi og ekki er vitað til að hann hafi greinst í fólki hér á landi. Matvælastofnun hefur þegar sent út tilmæli til allra dýralækna um að hafa vakandi auga vegna hugsanlegs smits í gæludýrum. Hundaeigendum sem hafa fengið hunda nýlega frá Dalsmynni og öðrum sem hafa ástæðu til að ætla að hundar þeirra geti verið smitaðir, er bent á að hafa samband við sinn dýralækni.

Einkenni eru ekki alltaf til staðar en fram getur komið niðurgangur, megurð og hægur vaxtarhraði. Í alvarlegum tilfellum fá hundarnir oftast hita og andardráttur verður grunnur og hraður. Strongyloides stercoralis lifir aðallega í fólki, en finnst einnig í hundum, köttum og öpum og smit getur borist á milli manna og dýra. Ekki er vitað hvort sama gerð ormsins smiti fólk og dýr, en ekki er hægt að útiloka það. Hann er algengur í Suður- og Austur-Evrópu, Afríku, Asíu og Mið- og Suður-Ameríku og suðausturhluta Norður-Ameríku.

Lirfur ormsins lifa í jarðvegi og geta smitað fólk og dýr um húð og meltingarveg. Oft veldur sýkingin engum einkennum en fram geta komið væg lungnaeinkenni, kviðverkir, ógleði og niðurgangur. Sýkingin er ekki talin hættuleg fólki nema fyrir einstaklinga með ónæmisbælingu vegna sjúkdóma eða lyfja,“ segir á vef Matvælastofnunar.

Ávallt skal gæta hreinlætis við umgengni og umönnun dýra því ýmsir sýklar geta borist úr dýrasaur í menn. Tíður handþvottur er mikilvægasta smitvörnin, einkum fyrir máltíðir og matarundirbúning. Forðast skal að láta hunda sleikja andlit fólks. Saur hunda skal hreinsa upp, setja í plastpoka og síðan í sorptunnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert