Stefán Jón: Auðvitað vil ég gera gagn

Stefán Jón Hafstein.
Stefán Jón Hafstein. mbl.is/Jim Smart

Stefán Jón Hafstein hefur fengið áskoranir um að bjóða sig fram til forseta Íslands. Á Facebook-síðu sinni skrifar Stefán Jón: „Ágætu fésbókarvinir. Þakka grúa skeyta og skilaboða í dag. Auðvitað vil ég gera gagn.“

Í seinni færslu skrifar hann: „Áður en getgátur fara í gang. Það er engin tilviljun að ég hef samþykkt 354 vinabeiðnir á tveimur dögum eftir tveggja ára frystingu. Og biðst forláts á því að 400 biða. Það er einhver fjandinn í gangi.“

Stefán Jón Hafstein er starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar í Malaví. Á bloggsíðu sinni skrifaði hann 28. febrúar, undir yfirskriftinni Hvers vegna ég skrifaði ekki undir áskorun forseta:

„Núverandi forseta hefur um margt tekist vel í embætti. Til marks um það er undirskriftastabbi 31 þúsunda kjósenda, um 13% þeirra sem eru á kjörskrá, sem biðja hann að hætta við að hætta. Mörgum þætti það góður stuðningur eftir 16 ára setu, oft á umbrotatímum.

Þeir 208 þúsund kjósendur sem ekki skrifuðu undir áskorun á forseta höfðu sig lítt í frammi meðan söfnun stóð. Þar sem ég er hluti af þeim meirihluta vil ég gera grein fyrir atkvæði mínu, sem ekki túlkast sem hjáseta.

En fyrst: Ég samgladdist forseta þegar hann sagði í áramótaávarpi sínu að hann væri hættur og ætlaði sér enn stærri hluti laus úr embættishlekkjum. Taldi hann vel að því kominn, því margir kostir forseta geta nýst annars staðar.“

mbl.is