Breskir þingmenn með ranghugmyndir um Icesave

Reuters

Talsverðar umræður sköpuðust meðal annars um Icesave-deiluna á Evrópuþinginu í gær þegar afgreidd var ályktun þar sem lýst var yfir stuðningi við inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Ekki virtust þó allir þeir þingmenn sem tóku þátt í umræðunni vera með staðreyndir málsins á hreinu og má þar nefna bresku þingmennina Charles Tannock og David Campbell Bennerman en þeir eru báðir í breska Íhaldsflokknum.

Þannig greinir fréttavefur breska dagblaðsins Independent frá því í gær að Tannock hafi haldið því fram að Hæstiréttur Íslands hafi viðurkennt skyldu Íslendinga til þess að greiða fyrir Icesave-innistæðurnar.

Þarna er væntanlega átt við staðfestingu Hæstaréttar síðastliðið haust á gildi neyðarlaganna sem sett voru í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008. Hún fól þó á engan hátt í sér að Ísland bæri ábyrgð á innistæðunum.

Bennerman hélt því hins vegar fram í umræðunni að óþarfi væri að beita umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið til þess að setja þrýsting á Íslendinga enda hefði EFTA-dómstóllinn þegar úrskurðað að Ísland ætti að greiða fyrir Icesave.

EFTA-dómstóllinn hefur þó enn ekki fellt neinn dóm í málinu en Eftirlitsstofnun EFTA hefur hins vegar höfðað mál gegn Íslandi vegna Icesave-deilunnar og haldið því fram að Íslendingar eigi að greiða fyrir Icesave-innistæðurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert