Líkt og Geir hafi einn vitað um krísuna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Niðurstaðan er náttúrlega fyrst og fremst sýkna. Það var búið að vísa frá stórum ákæruliðum og síðan eru dómarar sammála um að sýkna í helstu atriðunum sem eftir stóðu að undanskildu því að boða til ráðherrafunda um stöðuna í efnahagsmálum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is um niðurstöðu Landsdóms í ákærunni á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Hann segist telja nokkuð sérstakt að sakfellt skuli hafa verið vegna þess ákæruliðar. „Það er svona nánast eins og menn telji að Geir Haarde hafi einn manna í heiminum, eða að minnsta kosti hér á landi, vitað af þessari fjármálakrísu sem þá var í gangi. Hún var auðvitað mikið til umræðu um allan heim og ekki hvað síst hér á landi, bæði í þinginu og í pólitíkinni. Þar af leiðandi er ekki hægt að halda því fram að málinu hafi verið leynt fyrir ríkisstjórninni þó það hafi ekki verið rætt formlega á ríkisstjórnarfundi,“ segir Sigmundur.

Aðspurður hvort hann hafi búist við þeirri niðurstöðu sem Landsdómur komst að segist Sigmundur ekki hafa átt von á því að neinn af ákæruliðunum nægðu til sakfellingar eins og meðal annars hafi komið fram hjá honum á Alþingi. Hins vegar veki þessi niðurstaða upp spurningar um þær ríkisstjórnir sem á eftir komu og þar vísaði hann til núverandi ríkisstjórnar.

Spyr um núverandi ríkisstjórn og evrukrísuna

„Ég hef til að mynda þráfaldlega spurt út í viðbrögð hennar við evrukrísunni sem er engu minni krísa en undirmálslánakrísan sem við var að fást í tíð ríkisstjórnar Geirs Haarde. En það hefur verið fátt um svör og það mál virðist ekkert hafa verið rætt eða tekið formlega fyrir í ríkisstjórninni. Þá er spurningin ef áhrif þess máls verða mikil á Íslandi hver ábyrgð þessarar ríkisstjórnar er. Þannig að fordæmið sem komið er vekur upp ýmsar spurningar,“ segir Sigmundur.

Hann segir að ábyrgð þeirra sem tóku afstöðu til þess á Alþingi á sínum tíma hvort ákæra ætti Geir og þrjá aðra ráðherra fyrst og fremst á pólitískum forsendum sé mjög mikil spurður um ábyrgð þeirra sem stóðu að málinu. Hann hafi þó skilning á afstöðu þeirra sem vildu ákæra alla ráðherrana vegna þess að þeir töldu að þeim bæri lagaskylda til þess að gera það.

„Hins vegar finnst mér að niðurstaða dómsins sé fljótt á litið staðfesting þess að annaðhvort hefði átt að ákæra engan eða alla. Og þá á ég ekki aðeins við þann lið sem Geir var sakfelldur fyrir heldur málið í heild,“ segir Sigmundur en þess má geta að hann greiddi atkvæði á sínum tíma gegn því á Alþingi að Geir og þrír aðrir ráðherrar í ríkisstjórn hans yrðu ákærðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert