Þetta var ólýsanleg tilfinning“

Frá lokaæfingu íslenska Evróvisjónhópsins í dag.
Frá lokaæfingu íslenska Evróvisjónhópsins í dag. www.eurovision.tv/Andres Putting (EBU)

„Það var rosa gaman að flytja lagið. Mér líður svo vel, nú er takmarkinu náð og allt sem gerist á eftir þessu er bara bónus,“ sagði Greta Salóme, höfundur og annar flytjandi lagsins Never Forget, framlags Íslands í Evróvisjón. „Ég er mjög fegin að Íslendingar geta haldið grillpartí á laugardaginn.“

Lagið var eitt þeirra tíu laga sem komust áfram í aðalkeppnina á laugardaginn, en alls kepptu 18 lög í undanúrslitunum í kvöld, sem voru þau fyrri. Síðari undanúrslitin verða annað kvöld, þá komast einnig tíu lög áfram og síðan bætast við sex lög sem ekki þurfa að keppa í undanúrslitunum. 

„Þetta var æðislega skemmtilegt, þetta var ólýsanlegt tilfinning og það var magnað að standa uppi á þessu stóra sviði. Annars er þetta svolítið í þoku, það er eins og ég hafi farið á sjálfstýringu.“

Greta segir hópinn ekki hafa fundið fyrir miklu stressi fyrir keppnina. „Við vorum ekkert stressuð, þetta var frekar spenna. Við hlökkuðum til að gera þetta og standa okkur vel.“

Nú taka við stífar æfingar hjá íslenska hópnum fram á laugardag þegar stóra stundin rennur upp. Ekki liggur fyrir hvar í röðinni íslenska lagið verður.

mbl.is