EM í háskerpu á sérstakri rás

Danir æfa sig á Metalist-leikvanginum fyrir Evrópukeppnina í knattspyrnu.
Danir æfa sig á Metalist-leikvanginum fyrir Evrópukeppnina í knattspyrnu. AFP

RÚV sendir út 27 leiki í beinni útsendingu á aðalrás sinni frá EM í fótbolta 2012. Allir leikirnir verða jafnframt sendir út í tilraunaskyni í háskerpu á sérstakri rás hjá símafélögunum Vodafone og Símanum.

Að auki verða fjórir leikir sendir út í tilraunaskyni á aukarás, einnig hjá símafélögunum. Það eru síðustu leikirnir í riðlakeppni EM, þar sem tveir leikir fara fram á sama tíma og er annar sýndur á aðalrás RÚV en hinn á aukarásinni. Leikurinn á aðalrásinni verður sendur út í háskerpu en leikurinn á aukarásinni ekki.

 Aukarásin verður einnig nýtt um helgina til að sýna frá opna franska meistaramótinu í tennis og frá leik Íslands og Hollands í handbolta á sunnudaginn kl. 18.30.

 Háskerpurásin er aðgengileg á IPTV (adsl) sjónvarpi Símans, IPTV (adsl og ljósleiðara) sjónvarpi og Digital Íslandi hjá Vodafone. Einnig má ná háskerpurásinni á örbylgjukerfi Vodafone sem næst á höfuðborgarsvæðinu, upp á Akranes og yfir til Reykjanesbæjar og austur fyrir fjall (Árborg, Hveragerði og Þorlákshöfn). Eigendur nýlegra háskerpusjónvarpa  með svokallaðan DVB-T-móttakara  þurfa ekki afruglara þar sem dagskráin er opin. Þeir sem vilja ná stöðinni á örbylgju þurfa örbylgjuloftnet og gera sjálfvirka leit á sjónvarpinu.

Þeir sem vilja horfa á háskerpurásina í gegnum IPTV (adsl og ljósleiðara) og digital Ísland þurfa að vera með HD-myndlykla. Stöðvarnar birtast sjálfkrafa í yfirlitinu en ef ekki þarf e.t.v. að endurræsa lyklana.

 Háskerpuútsendingarnar eru aðgengilegar rúmlega 80% landsmanna en eins og áður hefur komið fram þurfa notendur að hafa hafa móttöku (adsl, ljósleiðara, digital Ísland) eða örbylgjuloftnet, vera með stafrænan móttakara (myndlykil eða innbyggðan í sjónvarpið) sem nemur háskerpu og háskerpusjónvörp.

 Aukarásin næst með sambærilegum hætti og háskerpurásin en er jafnframt aðgengileg  í gegnum UHF-kerfi Vodafone (hefðbundin loftnet, „gömlu greiðuna“) og nær þannig til 99% landsmanna.

 Hjá Vodafone, bæði í ADSL og á digital Ísland, er háskerpurásin (RÚV HD) númer 197 og aukarásin (RÚV íþróttir) númer 196.

Hjá Símanum er háskerpurásin (RÚV HD) númer 201 og aukarásin (RÚV íþróttir) númer 199.

 Starfsmenn þjónustuvera símafélaganna leiðbeina viðskiptavinum sínum um hvernig best er að ná útsendingunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert