Búið að slökkva eldinn í Hafnarfirði

Tekist hefur að slökkva gróðurelda sem brunnu í Áslandi í Hafnarfirði nú eftir hádegi í dag. Töluverðan reyk lagði frá eldinum sem var vel greinilegur á höfuðborgarsvæðinu. Slökkviliðið vaktar nú svæðið til að koma í veg fyrir að eldur blossi upp að nýju.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var með talsverðan viðbúnað vegna eldsins en erfitt var að komast að honum að sögn vaktstjóra. Þar sem slökkvibílar komust illa að eldinum   þurfti að kalla á aðstoð frá Landhelgisgæslunni sem sendi þyrlu á staðinn. Þyrlan var útbúin slökkvibúnaði eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Að sögn vaktstjóra er grunur um íkveikju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert