Blekking í umsókn eða góð trú?

WikiLeaks.
WikiLeaks. Reuters

Ákvörðun Valitor um að loka greiðslugátt DataCell nokkrum klukkustundum eftir að hún var opnuð í júní 2011 var tekin vegna þess að starfsemin, þ.e. móttaka fjárframlaga fyrir WikiLeaks, gekk gegn viðskiptaskilmálum Valitor. Beitt hafi verið blekkingum í umsókn fyrirtækisins og hún því samþykkt.

Þetta var meðal þess sem kom fram við aðalmeðferð í máli DataCell gegn Valitor fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. DataCell telur að ákvörðun Valitor um að loka greiðslugáttinni og rifta samningi við fyrirtækið hafi verið ólögmæt. Umsóknin hafi verið hefðbundin, ekki hafi á nokkurn hátt verið leynt að til stæði að safna fjárframlögum fyrir  WikiLeaks og starfsmönnum Valitor hafi verið kunnugt um það.

Meðal þeirra sem gáfu skýrslu var Ólafur Vignir Sigurvinsson, forstjóri DataCell. Hann sagðist hafa sótt um greiðslugátt hjá Valitor í gegnum vef fyrirtækisins og hafnaði því alfarið að hafa leynt Valitor starfseminni. „Það er ekki hægt því þeir þurfa að taka út síðuna samkvæmt sínum samningi við VISA, það felst í því að prufa greiðslu í gegnum síðuna. Það er langsótt að segjast ekki hafa vitað hvað fór fram.“

Hann fór einnig yfir það þegar alþjóðlegu greiðslukortafyrirtækjasamsteypurnar lokuðu á DataCell í desember 2010, og tók fram að enn væri lokað fyrir greiðslur til fyrirtækisins. Þrátt fyrir lokunina sótti DataCell um hjá Valitor. Ólafur Vignir sagði það hafa verið að frumkvæði starfsmanns Valitor sem hvatt hefði hann til að sækja um. 

Þegar Helga Melkorka Óttarsdóttir, lögmaður Valitors, spurði um umræddan starfsmann vildi Ólafur þó ekki nafngreina hann og sagði samtal þeirra á milli hafa verið utan vinnutíma. 

Umsóknareyðublaðið takmarkað

Helga spurði einnig ítarlega út í umsóknina sem Ólafur fyllti út. Hún rakti að í stefnu væri starfsemi DataCell sögð tvíþætt, annars vegar væri seldur aðgangur að gagnaverum og hins vegar veitti fyrirtækið rafrænum greiðslum móttöku. Að því sögðu spurði hún hvers vegna það væri ekki tiltekið í umsókninni að til stæði að taka við fjárframlögum til þriðja aðila. Ólafur sagði að ekki væri hægt að tiltaka alla þætti starfseminnar því hún gæti breyst, einnig hefði aðeins verið hægt að koma fyrir takmörku magni upplýsinga á stöðluðu umsóknareyðublaðinu.

Spurði Helga þá hvort ekki hefði staðið til frá upphafi að taka við fjárframlögum frá WikiLeaks. „Jú, en það stóð einnig til að selja fullt af annarri þjónustu,“ sagði Ólafur þá og tók einnig fram að hann hefði gert sambærilega samninga fyrir erlend fyrirtæki og ekki hafi þurft að tilgreina alla starfsemi þeirra.

Ólafur benti einnig á að eftir að umsóknin var lögð inn hefði Valitor verið sendur hlekkur með vefsvæðinu, þ.e. þar sem menn skráðu sig fyrir framlögum til WikiLeaks. Hann sagði   það skylt þannig að Valitor gæti tryggt að ekki væri verið að selja ólöglegan varning. Farið væri yfir hvort reglum væri fylgt tæknilega og viðskiptalega. „Þegar þeir eru sáttir við gáttina opna þeir fyrir viðskipti. Þá getur fólk um allan heim byrjað að senda inn framlög.“

Engin könnun gerð á fyrirætlan DataCell

Framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Valitor kom einnig fyrir dóminn. Hann tók fram að í umsókn DataCell hafi verið óskað eftir færsluhirðingaþjónustu og starfsemin tilgreind sem tækniþjónusta og gagnahýsing. Á þeim grundvelli hefði félagið verið metið og samningur gerður í kjölfarið.

Spurður út í úttekt sem gerð var á fyrirtækinu og greiðslugáttinni sagði framkvæmdastjórinn að um væri að ræða tæknilega úttekt á greiðslugáttinni, það er að allar greiðslur bærust og öryggisstöðlum væri fylgt. Valitor hefði hins vegar ekki verið kunnugt um að DataCell hygðist safna fjárframlögum fyrir þriðja aðila. Þegar það hefði komið í ljós hefði samningnum verið rift. „Það var á þeim grundvelli að starfsemin færi gegn viðskiptaskilmálum Valitor. [...] Meðal annars að söluaðila er óleyfilegt að taka við greiðslum fyrir þriðja aðila.“

Hann sagði ljóst að ekki hefði verið sagt rétt frá í umsókninni, þar sem þar segði að verið væri að bjóða upp á gagnahýsingu og tækniþjónustu. Hvergi væri minnt á innheimtu fjárframlaga fyrir þriðja aðila. „Umsóknin var engan veginn rétt.“

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður DataCell, spurði nánar út í skoðun Valitor eftir að umsóknin barst. Framkvæmdastjórinn sagði Greiðsluveituna sjá um könnun á greiðslugáttinni en Valitor skoði hvort fjárhagsupplýsingar fyrirtækisins. Þá tók hann fram að þar sem DataCell sótti um hjá innlendu sviði Valitor en ekki alþjóðlega sviðinu hefði skoðunin verið miklum mun minni en ella. „Í erlendu starfseminni höfum við lent í einstökum málum þannig að við tökum nánari úttekt á þeim söluaðilum sem eru tengdir færsluhirðingu. Í innlendri starfsemi hefur það ekki komið upp og því var ekkert tilefni til að skoða skilmála eða annað.“

Hann sagði jafnframt að skoðun Valitor á peningaþvætti hefði verið afar fátæklega á þessum tíma. „Við þurftum að þekkja eiganda félagsins og því prentuðum við út Lánstraustssíðu þar sem kemur fram hver eigandi félagsins er. Ég veit ekki til þess að meira hafi verið gert.“

Þá tók framkvæmdastjórinn fram að hann vissi ekki ti þess að nokkur starfsmaður Valitor hefði séð vefsvæðið, eða greiðslugáttina, áður en það var opnað.

Fékk símtal frá VISA

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, gaf einnig skýrslu. Hann sagðist reyndar ekki koma að viðskiptum sem þessum en vissi til þess að samningnum hefði verið rift sökum þess að í umsókn DataCell hefði komið fram að þjónusta sem þeir hygðust veita væri rekstur gagnavers, hýsing og tækniþjónusta. „Hins vegar kom á daginn að þeir voru að veita þjónustu til þriðja aðila, fjársöfnun, og út frá því var ljóst að upplýsingarnar í umsókn voru ekki réttar og því sögðum við upp samningnum.“

Viðar upplýsti um það að hann hefði fengið símtal frá VISA í Evrópu þar sem hann var upplýstur um það að færslur væru farnar að streyma um kerfið til WikiLeaks. Hann hefði raunar áður fengið sömu upplýsingar frá starfsmanni Valitor. Í símtalinu frá VISA hefði verið bent á að sagt hefði verið upp viðskiptum við DataCell í desember þar sem kortasamtökin alþjóðlegu töldu viðskipti fyrirtækisins ekki í samræmi við þeirra reglur. 

Aðspurður sagðist Viðar ekki hafa fengið nein fyrirmæli í símtalinu en hann hefði sjálfur sagst ætla að skoða málið. Ákvörðunin hefði alfarið verið tekin af Valitor.

Búast má við að dómur verði kveðinn upp á næstu vikum.

Valitor.
Valitor.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert