Enn deilt um hundruð milljóna

Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður Sunshine Press. Hann býst við …
Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður Sunshine Press. Hann býst við að báðum málum vegna kyrrsetningar 600 milljónanna verði vísað frá dómi. mbl.is/Eggert

Deila fyrirtækjanna Datacell og Sunshine Press Productions (SPP) um skiptingu á 1,2 milljarða króna skaðabótagreiðslu sem greiðslumiðlunin Valitor samþykkti að greiða fyrirtækjunum er enn fyrir dómstólum.

Í morgun fór fram fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur í einum anga málsins sem snýst um kyrrsetningu á hluta bótagreiðslunnar, 540 milljónum króna að sögn lögmanns, sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kyrrsetti að beiðni Datacell.

For­saga máls­ins er sú að Datacell annaðist greiðslugátt vegna fjár­öfl­un­ar Suns­hine Press, rekstr­ar­fé­lags Wiki­leaks. Árið 2011 rauf Valitor fyr­ir­vara­laust greiðslugátt­arþjón­ustu við fyr­ir­tæk­in með til­heyr­andi tekjutapi. Eft­ir ára­löng mála­ferli náðist dómsátt þar sem Valitor greiddi fyr­ir­tækj­un­um 1,2 millj­arða króna. 

Upphæðin skyldi skiptast þannig að SPP fengi 1.140 milljónir en Datacell 60 milljónir. Stuttu eftir að Valitor samþykkti að greiða bæturnar fór Datacell fram á kyrrsetningu þar sem fyrirtækið taldi sig eiga rétt á stærri hluta fjárhæðarinnar.

Krist­inn Hrafns­son rit­stjóri Wiki­Leaks vill ekki gefa upp hversu stór­an …
Krist­inn Hrafns­son rit­stjóri Wiki­Leaks vill ekki gefa upp hversu stór­an hlut fjár­fest­ar sem komu að því að kosta mála­ferli DataCell og SPP gegn Valitor fá í sinn hlut af 1,2 millj­arða skaðabót­um sem fé­lagið fékk. AFP

Sýslumaður samþykkti að kyrrsetja 540 milljónir króna í júlí síðastliðnum en áður en stefna vegna staðfestingar á kyrr­setn­ing­unni var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur krafðist SPP þess að sýslumaður myndi endurupptaka kyrrsetninguna þar sem hluti fjárhæðarinnar hafði verið veðsett þriðja aðila. Þeim aðila hafði ekki gefist kostur á að gæta hagsmuna sinna í samræmi við lög um kyrrsetningu og á þeim forsendum samþykkti sýslumaður að endurupptaka kyrrsetninguna.

Datacell rekur núna tvö mál fyrir héraðsdómi vegna kyrrsetningarinnar. Annars vegar mál til staðfestingar kyrrsetningarinnar frá því í júlí og hins vegar málskot til héraðsdóms vegna ákvörðunar sýslumanns að endurupptaka kyrrsetninguna. Málskotinu er hins vegar einungis beint að áðurnefndum þriðja aðila en ekki SPP.

„Borðleggjandi að þessu verði vísað frá“

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður SPP og þriðja aðila, segist búast við því að báðum málum verði vísað frá. Fyrra málinu vegna þess að lög gera ekki ráð fyrir því að héraðsdómur geti staðfest kyrrsetningu sem hefur verið endurupptekin og seinna málinu vegna þess að í því hefði átt að stefna báðum aðilum, þ.e. þriðja aðila sem og Sunshine Press, en ekki einungis þriðja aðila.

„Ég held það sé nokkuð borðleggjandi að þessu verði vísað frá, bæði þessu máli og staðfestingarmálinu,“ sagði Sveinn Andri í samtali við mbl.is eftir þinghald í morgun.

Varðandi skiptingu bótagreiðslunnar segir Sveinn Andri að upphaflega hafi samstarf fyrirtækjanna verið á þann veg að Datacell hafi annast greiðslugátt vegna fjáröflunar Sunshine Press og hafi átt að fá 5% þóknun fyrir. Því sé eðlilegt að skiptingin sé 95:5 eins og var lagt til þegar dómssátt var gerð við Valitor.

Datacell telur sig aftur á móti eiga rétt á hærri fjárhæð vegna fjármögnunar málarekstursins og vísar til samkomulags um helmingsskipti bótafjárhæðarinnar sem var gerð á sínum tíma. Sveinn Andri bendir hins vegar á að því samkomulagi hafi verið rift árið 2015.

mbl.is