Sókrates stelur sokkum og húfum

Hjónin Anne Melén og Ásgrímur Þorsteinsson tóku að sér köttinn Sókrates sl. vetur. Hann byrjaði fljótlega að koma með mýs og fugla heim - eflaust til að þakka fyrir húsaskjólið - en færði sig upp á skaftið í sumar og fór að koma heim með sokka, húfur, vettlinga og barnaföt.

Anne lýsir því að hún og Ásgrímur hafi síðastliðinn desember verið með aðventuboð á heimili sínu og gestirnir sátu um kvöldið í garðstofunni. „Það var snjór og kuldalegt úti og allt í einu birtist lítill svartur köttur mjálmandi fyrir utan. Honum var hleypt inn og fékk kjötbolluleifar og fór í fang vinkonu minnar sem er mikill dýravinur. Hann leit vel út svo við reiknuðum með því að hann hefði lokast úti einhvers staðar,“ segir Anne en kötturinn var ekki með ól.

Daginn eftir var kötturinn settur út en seinnipartinn kom hann á harðaspretti og vildi komast aftur inn. Það fékk hann og lærði kötturinn, sem þau nefndu Sókrates, fljótt að fara inn og út um lítinn glugga sem Anne hafði opinn. Hún auglýsti eftir eigandanum á vef Kattholts og fór síðan með hann til dýralæknis og lét athuga hvort hann væri örmerktur en svo var ekki. Læknirinn sagði Anne að Sókrates væri rúmlega hálfs árs fressköttur og ef enginn gæfi sig fram þá gætu þau átt hann. „Þegar enginn var búinn að gefa sig fram eftir 2-3 vikur þá létum við gelda hann. Okkur var farið að gruna að einhver hefði hreinlega hent honum út því hann var kominn á þann aldur að það þurfti að gelda og það kostar jú dálítinn pening en hann leit ekki út fyrir að hafa verið á flakki í langan tíma þegar hann kom til okkar.“

Músagildrur og barnaföt

Sókrates byrjaði fljótlega að koma með mýs heim og í tvígang kom hann með músagildrur með dauðum músum í. Þegar tók að vora kom hann með fugla og brugðu Anne og Ásgrímur þá á það ráð að setja bjöllu um hálsinn á honum. Í lok júní kom Sókrates heim með lítið, loðið tuskudýr, sem líktist rottu, og stuttu eftir það lopavettling. „Eftir það fór að bera á því að hann kom með einn og einn vettling sem hann dró með sér inn um kattalúguna sem við settum upp. Það er dálítið mál þannig að þetta hafa verið dálítil átök,“ segir Anne. „Svo ágerðist þetta og hann hefur nú komið heim með vettlinga, húfur, sokka, dúkkuföt og barnaföt. Svo höfum við hlegið að því þegar ég var erlendis um daginn, ég er semsagt finnsk, þá kom Sókrates heim með smábarnanærbuxur með múmínmótífi!“

Ljóst var að Sókrates hefði ekki fundið þessar heillegur flíkur á víðavangi og því fóru þau að gruna að hann hreinlega stundaði þjófnaði í nágrenninu, en þau búa á Flötunum í Garðabæ. Líklega kæmist hann einhvers staðar inn þar sem fólk geymir vetrarföt eða föt sem eru orðin of lítil. Anne setti upp auglýsingar í afgreiðslu sundlaugar bæjarins og á bókasafninu en enn sem komið er hefur enginn hringt. „Þetta eru orðnar hátt í 30-40 flíkur sem fylla tvo poka hjá mér. Ég er með þetta allt saman hér heima og vil endilega koma flíkunum til baka til eigendanna.“

Þeir sem kannast við flíkurnar, sem sjá má á meðfylgjandi myndum, geta haft samband við Anne í gegnum netfangið amelen@simnet.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert