Handtekinn og verður vísað úr landi

Hælisleitendur og flóttamenn halda til að Fit í Reykjanesbæ.
Hælisleitendur og flóttamenn halda til að Fit í Reykjanesbæ. mbl.is/Rax

Flóttamaður frá Nígeríu, sem dvalið hefur hér á landi í átta mánuði, var handtekinn af lögreglu í dag og verður sendur úr landi í fyrramálið. Unnusta mannsins segir að hann hafi verið kominn með vinnu og mjög áhugasamur um að búa áfram á Íslandi.

Maðurinn, sem heitir Samuel Eboigbe Unuko, kom hingað til lands á fölsuðu vegabréfi frá Svíþjóð. Hann hefur dvalið á Fit, gistiheimili í Reykjanesbæ fyrir flóttafólk, síðan. Unnustan, sem er íslensk, segir að nýverið hafi Útlendingastofnun úrskurðað í hans máli og var niðurstaðan sú að það bæri að vísa honum úr landi. Hann kærði úrskurðinn til innanríkisráðuneytisins sem komst að sömu niðurstöðu. Hins vegar hafi Samuel talið að lögfræðingur sinn væri að vinna í málinu og átti ekki von á að sér yrði vísað úr landi með svo skömmum fyrirvara. Samkvæmt því sem lögreglan segir parinu verður Samuel sendur til Svíþjóðar með flugi snemma í fyrramálið.

Samuel hefur nú fengið sér annan lögfræðing, Katrínu Oddsdóttur.

„Ég er núna að gera allt sem ég get til að reyna að fá yfirvöld til að fresta því að vísa honum úr landi,“ segir Katrín í samtali við mbl.is nú í kvöld. „Við viljum bera málið undir dómstóla fyrir hans hönd og í slíku máli yrði farið yfir það hvort ákvörðunin hafi verið tekin á réttan hátt, bæði hjá Útlendingastofnun og innanríkisráðuneytinu. Það hefur komið fyrir að dómsstólar hafi snúið við sambærilegum ákvörðunum. Og málið er það að ef þeir senda hann úr landi núna þá getur sú staða komið upp að dómstólar snúi málinu við og það getur orðið mjög dýrt fyrir alla aðila. Því viljum við að beðið verði með brottvísunina þar til niðurstaða fæst hjá dómstólum.“

Katrín segir slíkt eiga að taka skamman tíma þar sem flýtimeðferð slíkra mála sé lögbundin fyrir dómstólum. „Mér finnst mikill asi á þessu og að hann megi ekki hitta kærustuna sína, þar sem hann er ekki grunaður um neitt afbrot.“

Katrín segir að búið sé að taka símann af manninum, búið að pakka niður dótinu hans og að hann hafi aðeins fengið að hitta kærustu sína í fáar mínútur og þá undir eftirliti lögreglu. „Nú þorir hún ekki að yfirgefa lögreglustöðina því hún er hrædd um að fá ekki að koma inn aftur.“

Katrín tók við máli mannsins fyrst í kvöld. „Þessi maður á íslenska kærustu og er kominn með vinnu. Þannig að ég átta mig ekki á hvers vegna liggur svona mikið á að vísa honum úr landi.“

Samuel verður sendur til Svíþjóðar en þaðan kom hann til Íslands. Katrín segist hins vegar hafa fengið þær upplýsingar að búið sé að taka ákvörðun í hans máli í Svíþjóð, búið sé að neita honum um hæli þar. „Þannig að þá verður hann sendur beint til Nígeríu og þar er hann í hættu að eigin sögn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert