Mikill meirihluti andvígur aðild að ESB

Norden.org

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Capacent vann fyrir samtökin Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru nú 57,6% landsmanna andvíg því að Ísland gangi í Evrópusambandið. 27,3% eru því hins vegar hlynnt og 15% taka ekki afstöðu. Ef aðeins er miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti eru um 68% á móti aðild en 32% fylgjandi henni.

Ennfremur segir í niðurstöðunum að mest andstaða sé við aðild að ESB á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, 80% og 79%. Um 12% kjósenda flokkanna styðja hins vegar aðild að sambandinu.

Þá eru 62% kjósenda Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á móti því að Ísland gerist aðili að ESB. Minnst andstaðan við aðild að ESB er í kjósendahópi Samfylkingarinnar eða 12% en þar styðja 70% aðild.

Fram kemur á heimasíðu Heimssýnar að úrtakið í skoðanakönnuninni hafi verið 1.450 manns og svarhlutfallið 58,5%. Spurt var: „Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu?“

mbl.is