Sögðu já við öllu í Suðurkjördæmi

Talningu í Suðurkjördæmi lauk um klukkan sex í morgun. Kjósendur …
Talningu í Suðurkjördæmi lauk um klukkan sex í morgun. Kjósendur í kjördæminu sögðu já við öllum spurningum. Myndin er frá talningu í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Kjósendur í Suðurkjördæmi sögðu já við öllum spurningum í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. Alls kusu 14.487 manns í kjördæminu og reiknast kjörsókn 43,18%. 158 seðlar voru auðir og ógildir, þar af voru auðir 116.

Við fyrstu spurningu um hvort kjósendur vildu að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar við gerð frumvarps að nýrri stjórnarskrá sögðu 7.980 já eða 55,1%. Nei sögðu 5.831 eða 40,2%. 676 skiluðu auðu í þessari spurningu eða 4,7%. Ef einungis er miðað við gild greidd atkvæði við spurningunni sögðu 57,8% já við henni.

Við annarri spurningu um hvort lýsa eigi náttúruauðlindum sem ekki eru í einkaeign sem þjóðareign í nýrri stjórnarskrá sögðu 9.298 já eða 64,2%. Nei sögðu 3.069 eða 21,2%. 2.120 svöruðu spurningunni ekki eða 14,6%. Ef einungis er miðað við gild greidd atkvæði við spurningunni sögðu 75,2% já við henni.

Vilja að ákvæði um þjóðkirkju sé að finna í stjórnarskrá

Við þriðju spurningu um hvort í stjórnarskrá eigi að vera ákvæði um þjóðkirkju sögðu 7.685 já eða 53% og 4.800 sögðu nei eða 33.1%. 2.002 svöruðu ekki eða 13,8%. Ef einungis er miðað við gild greidd atkvæði við spurningunni sögðu 61,6% já við henni.

Við fjórðu spurningu um hvort fólk vildi að persónukjör í kosningum til Alþingis yrði heimilað í meira mæli en nú er sögðu 8.888 já eða 61,4% og nei sögðu 3.274 eða 22,6%. 2.325 svöruðu spurningunni ekki eða 16% kjósenda. Ef einungis er miðað við gild greidd atkvæði við spurningunni sögðu 73,1% já við henni.

Íbúar í Suðurkjördæmi vilja jafnt vægi atkvæða um allt land

Við fimmtu spurningu um hvort atkvæðavægi á landinu eigi alls staðar að vera jafnt sögðu 6.746 manns já eða 46,6%. Nei sögðu 5.445 eða 37,6%. Þeir sem ekki greiddu atkvæði við spurningunni voru 2.296 eða 15,8%. Ef einungis er miðað við gild greidd atkvæði við spurningunni sögðu 55,3% já við henni.

Við sjöttu spurningu um hvort í stjórnarskrá eigi að vera að tiltekið hlutfall atkvæðabærra manna eigi að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sögðu 8.595 já eða 59,3%. Nei sögðu 3.424 eða 23,6% og 2.468 svöruðu ekki eða 17% kjósenda. Ef einungis er miðað við gild greidd atkvæði við spurningunni sögðu 71,5% já við henni.

Karl Gauti Hjaltason, sýslumaður í Vestmannaeyjum, er formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi og sagði hann að talningin hefði gengið afar vel. Notast hefði verið við rafræna talningu og að talningu hefði endanlega verið lokið um klukkan sex í morgun.

mbl.is