Farsælla að breyta núverandi stjórnarskrá

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, fyrir miðju ásamt fleiri þingmönnum.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, fyrir miðju ásamt fleiri þingmönnum. mbl.is/Ómar

Talsvert var rætt um það á Alþingi í dag í kjölfar skýrslu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, um þjóðaratkvæðagreiðsluna um síðustu helgi hvort hægt væri að segja að þjóðin hefði sent skýr skilaboð í kosningunum eða ekki.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, gerði að umtalsefni það orðalag hjá bæði forsætisráðherra og fleiri stjórnarliðum að niðurstaðan fæli í sér skilaboð þjóðarinnar. Þó niðurstaðan væri vissulega afgerandi sæi hann ekki að hægt væri að segja að þjóðin hefði sent einhver skilaboð með henni, ekki síst í ljósi kjörsóknarinnar. Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku í sama streng og hann.

Þá sögðu Gunnar Bragi og þingmenn bæði úr röðum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna að líklega væri farsælla að gera breytingar á núgildandi stjórnarskrá lýðveldisins en koma á nýrri stjórnarskrá.

Vísað var meðal annars til orða fyrrverandi formanns stjórnlagaráðs, Salvarar Nordal, í þeim efnum um að ekki þyrfti að innleiða allar þær breytingar sem tillaga ráðsins kvæði á um fyrir næstu kosningar heldur væri hugsanlega hægt að skipta þeirri vinnu niður á lengri tíma.

Þessi málflutningur hlaut hins vegar ekki góðar undirtektir hjá stjórnarliðum sem lögðu áherslu á að málið yrði unnið á grundvelli tillaga stjórnlagaráðs og það klárað með nýrri stjórnarskrá fyrir þingkosningarnar næsta vor.

mbl.is

Bloggað um fréttina