Lítt gróið land fór illa í ofsaveðrinu

Sandfok í Eldhrauni síðastliðið sumar.
Sandfok í Eldhrauni síðastliðið sumar. Ljósmynd/Sveinn Runólfsson

Nú er gengið um garð annað illviðrið á þessu hausti, um mánuði á eftir óveðrinu í fyrri hluta september. Í báðum tilvikum komu ofsa stormar á auða jörð sunnanlands, en snjór varði jörð á Norður- og Norðausturlandi. Þessum stormum fylgdi mikill uppblástur og moldrok og lítt gróið land og rofsvæði fóru mjög illa í þessum veðrum, bæði á láglendi og á afréttum. Þetta kemur fram í frétt á vef Landgræðslunnar.

 Gera verður ráð fyrir að mikið tjón hafi orðið á nýgræðingi sem hefur verið að nema land á auðnum á afréttunum á síðustu árum, þó ekki hafi gefist ráðrúm til að meta skemmdirnar, segir ennfremur í fréttinni.

 Sömu sögu er að segja af nýsáningum á rofsvæðum, þar er líklegt að mikil eyðilegging hafi orðið. Ástæða er til að ætla að versta gróðureyðingin á láglendi hafi orðið í Eldhrauni í Skaftárhreppi, en þar hefur verið mikill uppblástur vegna sandburðar frá Skaftá á liðnum áratugum. Mikið öskufok var einnig í Fljótshverfi í Skaftárhreppi, Austur Eyjafjöllum og innanverðri Fljótshlíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert