Hnuplað fyrir sex milljarða á ári

Árleg rýrnun í verslunum vegna hnupls er áætluð um sex …
Árleg rýrnun í verslunum vegna hnupls er áætluð um sex milljarðar króna. Við bætist ýmis kostnaður sem verslanir þurfa að taka á sig til að koma í veg fyrir búðahnupl. Rax / Ragnar Axelsson

Árleg rýrnun í verslunum vegna hnupls er áætluð um sex milljarðar króna. Við bætist ýmis kostnaður sem verslanir þurfa að taka á sig til að koma í veg fyrir búðahnupl. Framkvæmdastjóri Hagkaupa segir sífellt aukið við ráðstafanir vegna þessa, en engu að síður komi það fyrir að fólk „hreinsi úr heilu hillunum“.

„Við skráum öll tilvik hjá okkur, en líklega er annað eins sem við vitum ekki af,“ segir Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, sem er einn stærsti aðilinn í smásöluverslun hér á landi. 

„Við erum sífellt að auka við ráðstafanir. Fyrir nokkru settum við einstefnuhlið í allar búðir og höfum fjölgað öryggisvörðum. Að auki höfum við bætt öryggismyndavélakerfið hjá okkur, sem fólk fylgist grannt með og erum með fólk, sumt af því einkennisklætt, sem gengur um og fylgist með. En við lítum á þetta eftirlit fyrst og fremst sem forvörn.“

Að sögn Gunnars eru öll þjófnaðarmál kærð til lögreglu og segir hann þar vera afar gott samstarf. 

Sex milljarðar á ári

Í samantekt Samtaka verslunar og þjónustu sem gerð var fyrir nokkrum vikum og send innanríkisráðherra kemur fram að árleg rýrnum vegna búðaþjófnaða sé áætluð um sex milljarðar króna. Þessar tölur eru ekki greindar í svokallaða innri og ytri þjófnaði, en þeir fyrrnefndu eiga sér stað þegar starfsfólk tekur hluti ófrjálsri hendi.

Við þetta bætist kostnaður við að halda úti eftirliti, og eru sum stærri fyrirtæki með öryggisdeildir sem hafa það hlutverk með höndum að fylgjast með búðahnupli.

Í samantektinni kemur fram að verslunareigendum hefur reynst erfitt að fá kröfur teknar upp af ákæruvaldinu. Mál, sem tengjast búðaþjófnuðum, séu oft felld niður og segir í samantektinni að kröfum sé oft mótmælt af þeim sem ákærðir séu.

Hreinsað úr heilu hillunum

Gunnar segist hafa séð „ansi svæsin“ myndbönd úr öryggismyndavélunum, þar sem fólk bókstaflega „hreinsi úr heilu hillunum“ og stingi inn á sig. Þá hafi það gerst, áður en einstefnuhliðin voru sett upp, að fólk hafi ekið fullum búðarkörfum út úr versluninni, án þess að greiða fyrir það sem í körfunni var.

Hann segir aukagæslu vera í verslunum Hagkaupa fyrir og um jólin, ekki síst vegna öryggis viðskiptavina. „Það hafa komið upp þannig dæmi í jólaösinni að fólk sem ekki er heilsuhraust þarf á aðstoð að halda.“

Gunnar segir ýmislegt hafa komið fram á undanförnum árum sem torveldi búðaþjófum iðju sína, þar á meðal séu segulmerkingar á varningi. „En þetta er endalaus barátta og við getum ekki slakað á í þessum efnum.“

Máttu ekki hengja upp myndir af fingralöngum

Til ýmissa ráða hefur verið gripið í þeim tilgangi að stemma stigu við búðaþjófnaði. Að sögn Gunnars voru eitt sinn hengdar upp myndir af þeim, sem oft höfðu verið staðnir að búðaþjófnaði, í einni verslun Hagkaupa. Myndirnar voru hengdar upp á baksvæði, þar sem enginn nema starfsfólk hafði aðgang og voru til þess ætlaðar að starfsfólk hefði gætur á viðkomandi. „Við vorum líka að hugsa um öryggi starfsfólksins, að það færi ekki að nálgast aðila sem eru hættulegir,“ segir Gunnar.

Persónuvernd barst kvörtun um myndirnar og felldi úrskurð um að miðlun slíkra upplýsinga væri óheimil. Þær voru því teknar niður.

Stal sjónvarpi og kom aftur

Gunnar segir búðaþjófa grípa til ýmissa bragða. „Einu sinni kom maður inn í eina verslunina, merktur einum af birgjum okkar í bak og fyrir og sagðist þurfa að bæta á lager verslunarinnar. Enginn kannaðist við kauða og í ljós kom að hann hafði komist yfir fatnað sem var merktur tiltekinni heildverslun í þeim tilgangi að fá aðgang að lagernum.“

„Annars er uppáhaldssagan mín af manninum með hækjurnar. Hann setti sjónvarp í kerruna og fékk síðan starfsmann til að hjálpa sér með það út og setja það í bílinn. Það uppgötvaðist ekki fyrr en síðar að hann hafði ekki greitt fyrir tækið. Hann var svo ánægður með árangurinn að hann kom aftur og hugðist endurtaka leikinn. En þá náðist hann,“ segir Gunnar.

Gunnar Ingi Sigurðsson.
Gunnar Ingi Sigurðsson.
Sviðsett mynd af búðarhnupli.
Sviðsett mynd af búðarhnupli.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert