Orðrómur varð að 500.000 kr. skuld

Þeir Annþór og Börkur koma ávallt í lögreglufylgd.
Þeir Annþór og Börkur koma ávallt í lögreglufylgd. mbl.is/Júlíus

„Hann var búinn að tala um að skjóta undan okkur lappirnar með haglabyssu, var samt ekki með haglabyssu á sér. Við ræddum þetta við hann og svo tók hann sprettinn. Held að hann hafi verið smeykur.“ Þetta er lýsing Barkar Birgissonar á árás sem hann og Annþór Kristján Karlsson eru ákærðir fyrir.

Áður hefur verið greint frá 1. ákærulið ákæru á hendur Annþóri, Berki og átta öðrum. Nú er komið að annarri árásinni, af þremur, sem ákært er fyrir.

Samkvæmt ákæruskjali eru Annþór og Börkur ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að [Ó] í íbúð í Grafarvogi. Börkur sló hann með barefli í hnakkann þannig [Ó] fékk skurð á höfuðið. Einnig fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung með því að hafa veist að [V], neytt hann til að leggjast á magann, staðið á höndum hans og haldið honum þar á meðan kastað var yfir hann þvagi.

Auk þess sló Börkur [V] með bareflinu í hnakkann og reif í vinstra eyra hans.

Einnig eru þeir ákærðir fyrir að hafa þvingað [Á] til að kasta þvagi yfir vin sinn [V] þar sem hann lá á gólfinu.

Þeir eru þá ákærðir fyrir frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgana. Kröfðust þeir að [Ó] greiddi þeim hálfa milljón daginn eftir og að [V] greiddi þeim 200 þúsund krónur á mánuði í ótiltekinn tíma.

Vildu fá málin á hreint

Hvað gerist?

„Við bönkum og [AB] kemur til dyra ásamt kærustu sinni. [Ó] kemur út og talar við okkur. Við erum að ræða þarna ákveðin mál,“ sagði Börkur spurður af saksóknara.

Hvers vegna?

„Af því að hann hafði talað um að hann ætlaði að skjóta undan okkur lappirnar,“ sagði Annþór spurður af saksóknara.

Hver var tilgangurinn?

„Nú að fá þessi mál á hreint, hvort hann væri að segja þetta og hvernig það væri tilkomið,“ sagði Annþór.

Báðir sögðust þeir Annþór og Börkur hins vegar aldrei hafa farið inn í íbúðina. Umræddur [Ó] hefði komið út, þeir rætt saman, hann tekið á rás, niður stiga og þar hrasað. Hann hafi þá staðið upp og hlaupið sem fætur toguðu burtu.

Saga sem gekk á Akureyri

Allir þeir sem komu voru í íbúðinni í Grafarvogi komu fyrir dóminn. Til dæmis var [Ó] beðinn um að skýra frá því sem gerðist umræddan dag. „Ég var búinn að heyra að Annþór og Börkur væru á eftir mér. Ég hringi í [AB] sem ætlaði að hjálpa mér í þessu máli. Hann hringir í þá og segir að ég sé hjá honum. Þeir koma inn ásamt fleirum.“

Umræddur [AB] gaf einnig skýrslu. „[Ó] og vinir hans kíktu í heimsókn og ég var að kaupa af þeim fíkniefni. Á meðan kíktu Annþór og Börkur á mig. Þá sjá þeir [Ó] inni í íbúðinni. Hann kom og talaði við þá svo stuttu síðar fóru [Ó] og félagar hans og ég kvaddi bara Börk og Annþór.“

Framburður [Ó] heldur áfram. „Börkur lemur mig með einhverri spýtu. Ég ligg á gólfinu og þeir lemja mig áfram. Annþór dregur mig svo inn á klósett og lemur mig í andlitið. Ég átti að borga 500 þúsund krónur næsta dag og fengi ekki að fara út fyrr en ég væri búinn að samþykkja það.“

Verjandi Barkar spurði þá [Ó]: „Varst þú með hótanir í garð þeirra?“ Og ekki stóð á svari: „Nei, það var saga sem gekk á Akureyri.“

Greiðvikinn starfsmaður Barkar

Annþór og Börkur sögðust ekki hafa séð aðra en [Ó] umrætt sinn, enda hefðu þeir aldrei farið inn í íbúðina. Hins vegar var Börkur spurður út í samskipti sín við [V]. „Þetta er mjög skrítinn drengur. Hann hefur haft samband í gegnum tíðina og viljað gera eitthvað fyrir mig. Hefur viljað gera mér greiða og svona. Hann er eitthvað skrítinn. Ég hef alltaf verið góður við hann.“

[V] gaf skýrslu í morgun en aðeins eftir að Börkur og Annþór voru farnir úr dómsalnum. Í læknisvottorði sagði að það myndi beinlínis ógna heilsu mannsins ef hann þyrfti að gefa skýrslu með Annþór og Börk inni í salnum.

Þekktir þú Börk eitthvað?

„Já, ég var að vinna fyrir hann, var að stela hlutum fyrir hann. Það sem ég neitaði að gera síðast var að stela blöndunartækjum fyrir hótel sem hann rak,“ sagði [V] við spurningu saksóknara.

Hann var beðinn um að lýsa viðvikinu nánar. „Ég átti að brjótast inn í Byko og ná í þrjú svona blöndunartæki og láta hann fá þau, og ég mátti ekki tala um það í síma við hann eða á netinu. Ég gerði það ekki en fór í felur og þá fór hræðslan að koma yfir.“

[V] lýsti því einnig að Börkur hefði minnst á það að hann hefði ekki staðið sig þegar hann þvingaði vin hans til að kasta yfir hann þvagi.

En hann sagði að það hefði ekki verið eina refsingin. „Svo spurði Börkur hvað ég fengi í bætur á mánuði. Ég sagði að það væri rúmar 200 þúsund krónur. Þá sagði hann: „Þú skuldar mér 200 þúsund krónur á mánuði þar til ég segi stopp.““

Glæpasamtök koma inn í spilið

Einn þeirra sem var í íbúðinni, [Á], bar á annan veg en hinir. Hann sagðist hafa verið úti í horni allan tímann og horft niður. Hann neitaði því alfarið að ráðist hefði verið á [V] og sagðist ekkert geta borið um það.

Er það ekki rétt að þú hafir verið látinn pissa á hann?

„Ég vil helst ekki tjá mig um það,“ sagði [Á] við spurningu saksóknara sem gafst ekki upp og vísaði í lögregluskýrslu þar sem [Á] lýsti því sem gerðist. „Ég gerði það aldrei, lýsti því aldrei,“ sagði [Á] reiður en staðfesti síðar undirskrift sína á skýrslunni.

[Á] var ekki eina vitnið sem breytti framburði sínum frá því sem var hjá lögreglu. [AB] var einnig spurður út í breyttan framburð. Hann sagði að [Ó] og félagar hans væru í tygjum við glæpasamtök tengd Útlögunum (e. Outlaws) og hann hefði verið þvingaður til að segja það sem þeir vildu hjá lögreglu. Hann sagði að herjað hafi verið á fjölskylda hans og hann hafi verið laminn, meðal annars af því að [V] hefði komið honum í vandræði vegna neyslu sinnar.

Þegar hann var spurður hvort það væri rétt að kærasta hans hafi ekki viljað hleypa Berki og Annþóri inn í íbúðina sagði [AB] það ekki rétt. „Það er mesta vitleysa. Þetta voru góðir kunningjar og hún þekkti Annþór og Börk.“ Það sem kannski gleymdist í spurningunni var að segja [AB] að það voru Annþór og Börkur sem héldu þessu fram.

Börkur í lögreglufylgd. Fyrir framan hann er Ingi Freyr, verjandi …
Börkur í lögreglufylgd. Fyrir framan hann er Ingi Freyr, verjandi Barkar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert