Bætur greiddar eftir lagabreytingu

224 jarðir urðu fyrir tjóni í óveðrinu í september.
224 jarðir urðu fyrir tjóni í óveðrinu í september. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ekki verður hægt að ljúka greiðslu á bótum úr Bjargráðasjóði til bænda sem urðu fyrir fjárskaða í óveðinu í september fyrr en búið er að breyta lögum á Alþingi. Stærstur hluti bótanna verður hins vegar greiddur strax og atvinnuvegaráðuneytið hefur staðfest reglur um greiðslu bótanna.

Óveðrið sem gekk yfir Norðurland 9. til 11. september sl. olli tjóni sem metið er á um 142 milljónir króna. Ríkisstjórnin samþykkti fyrr í þessum mánuði að veita Bjargráðasjóði 120 milljónir króna til að standa straum af bótagreiðslum og jafnframt verði sjóðnum heimilað að nýta á bilinu 20 til 30 milljónir króna af ónýttum fjárheimildum sem sjóðurinn fékk vegna tjóns í eldgosum á Suðurland.

Áætlað er að 224 jarðir hafi orðið fyrir tjóni á svæðinu sem um ræðir. Samkvæmt mati vantar 6.318 lömb og 3.105 ær á þessum bæjum og hafa þær skepnur ýmist fundist dauðar eða ekki heimst. Þá drápust 50 nautgripir og 132 kílómetrar af girðingum eru skemmdir, illa farnir eða ónýtir.

Búið er að vinna drög að reglum um greiðslu bóta vegna tjónsins. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið á eftir að staðfesta reglurnar, en vonast er eftir að yfirferð ráðuneytisins ljúki fljótlega.

Breyta þarf lögum

Um 25% af því verði sem bændur fá fyrir sláturlömb er svokallað gæðastýringarálag, en það getur verið mismunandi milli bænda eftir þeim árangri sem þeir ná í búskapnum. Gæðastýringarálag er greitt úr einum potti og ef Bjargráðasjóður greiðir ekki þetta álag til bænda sem urðu fyrir tjóni hækka greiðslur til annarra bænda. Rætt hefur verið um að sjóðurinn greiði bændum eitthvert meðalgæðastýringarálag, en til að það sé hægt þarf að breyta búvörulögum með sambærilegum hætti og gert var þegar bætur voru greiddar vegna tjóns í Eyjafjallagosinu.

Ekki er búið að leggja fram frumvarp sem inniheldur þessa breytingu. Reiknað er með að þingmenn greiði fyrir þessari lagabreytingu, en hins vegar eru jafnan miklar annir á þingi í desember og því óvíst hvenær frumvarpið verður að lögum.

Reiknað er því með að bændur sem urðu fyrir fjárskaða í september fá um 70% bótanna greidd á næstu dögum eða vikum, en að hinn hlutinn komi síðar.

Þurfa að standa í skilum með lán

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir mikilvægt að bændur sem urðu fyrir fjárskaða fá tjónið bætt sem fyrst. Sláturleyfishafar séu búnir að greiða innleggið til bænda, en þeir sem urðu fyrir tjóni hafi orðið fyrir tekjumissi. Margir þurfi að standa í skilum með lán um þessi mánaðamót þar sem þeir stilli greiðslur fyrir áburð og önnur hráefni í takt við þegar tekjurnar koma á haustin. Landssamtaka sauðfjárbænda skrifuðu birgjum og lánastofnunum bréf fyrir skömmu og báðu um að bændum sem urðu fyrir tjóni og bíða eftir greiðslum úr Bjargráðasjóði yrði sýndur skilningur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert