Sýknaður í Vegasmáli

Hæstiréttur
Hæstiréttur mbl.is / Hjörtur

Hæstiréttur sýknaði í dag Sigurþór Arnarsson af ákæru í svonefndu Vegasmáli. Sigurþór var sýknaður í héraðsdómi árið 1998 en sakfelldur í Hæstarétti árið eftir. Hann fékk málið tekið upp og var sýknaður eftir skoðun Hæstaréttar öðru sinni.

Málið var höfðað í júlí 1997 á hendur Sigurþóri og öðrum manni. Þeim var gefið að sök að hafa sparkað í höfuð manns þar sem hann lá á gólfi veitingahússins Vegas í kjölfar þess að Sigurþór greiddi manninum höfuðhögg með þeim afleiðingum að hann féll í gólfið. Maðurinn lést af völdum heilablæðingar sólarhring eftir atvikið.

Héraðsdómur sýknaði Sigurþór af ákærunni en Hæstiréttur sakfelldi hann og dæmdi í tveggja ára og þriggja mánaða fangelsi.

Hæstiréttur féllst á beiðni Sigurþórs um endurupptöku málsins í sumar.

Í dómi Hæstaréttar segir að engin efni standi til að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar í málinu sé röng svo einhverju máli skipti um úrslit máls. Sigurþór hafi staðfastlega neitað sök og ákæruvaldinu ekki tekist að setja fram sönnunargögn til stuðnings sakfellingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert