Lögreglan á von á nýjum kærum

Karl Vignir Þorsteinsson.
Karl Vignir Þorsteinsson. Skjáskot/Kastljós

Barnaníðingurinn Karl Vignir Þorsteinsson dvelur nú í fangaklefa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Grunur leikur á um að hann hafi framið nýrri brot en áður hafa komið fram og hugsanlegt að farið verði fram á gæsluvarðhald á grundvelli þeirra. Lögreglan á von á nýjum kærum frá þolendum brota Karls Vignis.

„Það er verið að fara yfir gögn og taka ákvörðun um framhaldið,“ segir Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Karl Vignir var sóttur af lögreglu síðdegis í gær til skýrslutöku sem stóð fram á kvöld og hélt áfram í morgun og fram undir hádegi. 

Aðspurður hvort Karl Vignir hafi verið lögreglu samvinnuþýður segist Björgvin ekki geta tjáð sig um það sem fram fór í skýrslutökunum. Hann staðfestir þó að fram sé kominn grunur um nýrri brot en þau sem áður hafa komið fram, en Karl Vignir játaði árið 2007 fyrir lögreglu kynferðisbrot sem þá voru fyrnd. 

Á grundvelli þessara nýju upplýsinga er hugsanlegt að krafist verði gæsluvarðhalds yfir Karli Vigni og verður það ákveðið síðar í dag að sögn Björgvins. Aðspurður hvort nýjar kærur hafi verið lagðar fram af hálfu þolenda Karls Vignis, síðan Kastljós hóf umfjöllun um mál hans í vikunni, segist Björgvin eiga von á því að svo verði.

„Við eigum von á fólki sem er þá að tilkynna eða kæra brot sem hugsanlega eru ekki fyrnd.“

Björgvin Björgvinsson
Björgvin Björgvinsson mbl.is/HAG
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert