Bryndís hættir sem rektor Bifrastar

Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst.
Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst. Ljósmynd/Háskólinn á Bifröst

„Þegar ég tók við keflinu árið 2011 tók ég rektorsstarfið að mér tímabundið með það að leiðarljósi að takast á við tiltekin afmörkuð verkefni, sem fólust aðallega í að efla stöðu skólans fjárhagslega og faglega, ásamt því góða fólki sem unnið hefur með mér hjá skólanum. Ég tel nú rúmum tveimur árum síðar að ákveðin vatnaskil séu í þeim verkum sem ég réði mig til og kominn sé tími til fyrir nýjan einstakling að taka við keflinu. Ég hef því greint stjórn skólans frá þeirri ákvörðun minni að segja starfi mínu sem rektor lausu og mun ég láta af störfum þann 1. ágúst n.k.“

Þetta sagði Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst, í ræðu sinni í dag þegar 58 nemendur skólans voru útskrifaðir. Bryndís sagðist stolt af því búi sem hún skilaði af sér og hlakka til þess að fylgjast með öflugu skólastarfi á Bifröst í framtíðinni. „Ég hugsa til áranna hér við skólann með hlýhug, ekki síst til þeirra fjölmörgu starfsmanna sem ég hef unnið með og þeirra ótal mörgu nemenda sem ég hef kynnst í starfi mínu hér.“

Þá sagðist hún hafa lært mikið á þeim tíma sem hún hafi gegnt starfi rektors og að sá tími hafi verið gefandi þrátt fyrir mikinn ólgusjó á köflum. „Hér á Bifröst ríkir einstakur baráttuandi og kraftar sem eru engu líkir og ég veit að með virkjun þeirra og þess sterka baklands sem við eigum í nær- og fjærsamfélagi okkar, að skólanum á eftir að farnast vel í framtíðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert