Komin langt á veg vorið 2015?

Stefán Haukur Jóhannesson og Michael Leigh, yfirmaður stækkunarskrifstofu Evrópusambandsins.
Stefán Haukur Jóhannesson og Michael Leigh, yfirmaður stækkunarskrifstofu Evrópusambandsins. Utanríkisráðuneytið

„Við höfum alltaf lagt áherslu á gæði umfram hraða. Það fer eftir því hversu miklum árangri við náum í að finna lausnir í þessum ákveðnu málum sem við þurfum að takast á við í aðildarviðræðunum. En ég hugsa að á næsta kjörtímabili, að loknum kosningunum fyrir næstu fjögur árin, um mitt næsta kjörtímabil þá verðum við komin mjög vel á veg. En tíminn verður að leiða það í ljós og þetta ferli snýst fremur um innihald og lausnir en tímamörk.“

Þetta segir Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands í viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, í viðtali sem birtist í gær og í dag á litháíska fréttavefnum Lithuania Tribune spurður að því hvenær hann telji að Ísland kunni að ganga í sambandið og hafa þannig bæði lokið viðræðunum og haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Hann segist í viðtalinu telja að um mitt næsta kjörtímabil, það er um vorið 2015, verði Ísland komið vel á veg í þeim efnum líkt og áður segir.

Stefán Haukur segist alltaf hafa viljað tala varlega í þessum efnum og ekki viljað gefa neinar dagsetningar hvenær umsóknarferlinu kynni að ljúka. Hann vonist þó til þess að á síðasri helmingi þessa árs, þegar Litháen fari með forsætið innan Evrópusambandsins, verði hægt að loka sem flestum af þeim viðræðuköflum sem hafi verið opnaðir en af 35 viðræðuköflum hefur 11 verið lokað og 16 aðrir opnaðir.

Ennfremur er Stefán spurður um afstöðu almennings á Íslandi til inngöngu í Evrópusambandið og segir hann meirihluta þjóðarinnar vera á móti inngöngu eins og sakir standi. Hins vegar vilji fleiri klára viðræðurnar en hætta þeim. Þá segist hann aðspurður telja að það sem valdið hafi andstöðu á Íslandi við inngöngu í sambandið hafi annars vegar verið Icesave-deilan og hins vegar efnahagsástandið á evrusvæðinu.

Stefán er einnig spurður út í sjávarútvegsmálin í tengslum við viðræðurnar við Evrópusambandið og segist hann telja að hægt verði að ná fram sérlausn vegna fiskveiða við Ísland sem rúmist innan sameiginlegrar fiskveiðistefnu sambandsins og án þess að gengið sé gegn grundvallarreglum þess. Hann segist telja sameiginlegu stefnuna nógu sveigjanlega til þess að hægt verði að koma til móts við hagsmuni Íslands.

Frétt Lithuania Tribune

mbl.is