„Ég fylgist vel með dagatalinu“

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Óþarfi er að minna mig á hversu skammt er eftir af þinginu. Ég fylgist vel með dagatalinu og er hjartanlega sammála því að nýta beri þessa daga mjög vel,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi í morgun og brást þannig við áminningu formanns Framsóknarflokksins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði forsætisráðherra við fyrirspurnartíma á Alþingi hvort ekki væri ástæða til að nýta þá átta þingdaga sem eftir eru til að taka á þeim brýnu málum sem ekki þoldu bið þegar ríkisstjórnin tók við fyrir fjórum árum, t.d. varðandi skuldastöðu íslenskra heimila. „Nýta tímann vel til þess að standa við eitthvað af þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin veitti þegar hún tók við.“

Jóhanna nefndi í svari sínu að sér þætti yfirstandandi þingvika ekki hafa verið nýtt nægilega vel. Hætt hafi verið umræðum snemma að degi en hægt hefði verið að halda áfram og nýta þann tíma til að fara í þau mörgu mál sem eru óafgreidd í nefndum þingsins. Hún sagði málin nærri fimmtíu talsins.

Hún sagði formann Framsóknarflokksins vel vita að mikið hafi verið gert fyrir heimilin í landinu, þó alltaf sé hægt að gera betur. Enn sé verið að skoða þau mál og meðal annars tillögur Framsóknarflokksins. Það undarlega við þær tillögur sé hins vegar að þegar beðið er um útreikning á þeim sé ekki hægt að reikna þar sem allar forsendur og talnagrunn vanti.

mbl.is

Bloggað um fréttina