Almennir læknar segja upp á Landspítala

20 almennir læknar á Landspítalanum, þar af allir deildarlæknar sem …
20 almennir læknar á Landspítalanum, þar af allir deildarlæknar sem eru í sérnámi á kvenlækningasviði sjúkrahússins, sögðu upp störfum sínum í dag. Ásdís Ásgeirsdóttir

20 almennir læknar á Landspítalanum, þar af allir deildarlæknar sem eru í sérnámi á kvenlækningasviði sjúkrahússins, sögðu upp störfum sínum í dag. Ekki er útilokað að fleiri bætist í hópinn. Uppsagnirnar taka gildi þann 1. apríl.

Um 100 almennir læknar starfa á Landspítalanum.

„Þetta er ekki óskastaða fyrir neinn,“ segir Ómar Sigurvin Gunnarsson, formaður Félags almennra lækna. 

Hann segir að um sé að ræða lækna á lyflækninga-, kvenna- og barnasviði. Flestir almennir læknar á Landspítalanum séu ráðnir tímabundið, til eins árs í einu og því sé uppsagnarfrestur þeirra einn mánuður.

Hafa dregist aftur úr í launaþróun

„Þetta er langvarandi þreyta í fólki. Ég og margir fleiri hafa bent á það í mörg ár, allt frá því að könnun var gerð árið 2010 sem sýndi að almennir læknar eru ein af óánægðustu stéttum sjúkrahússins. Við höfum reynt að fá fram ýmsar breytingar, en það hefur hvorki verið hlustað á okkur né verið vilji til að grípa til ráðstafana,“ segir Ómar.

Hann segir almenna lækna hafa dregist aftur úr öðrum háskólamenntuðum starfsmönnum ríkisins í launaþróun, en laun þeirra hafi hækkað um 8,4 - 8,7% frá árinu 2007. „Það er engan veginn í takt við aðrar stéttir. Ekki bætir það ástandið að aðrar heilbrigðisstéttir hafa fengið kjarabætur vegna mikils álags í starfi. Okkur hefur ekki boðist neitt slíkt.“ Hvaða stéttir áttu við? „Til dæmis hjúkrunarfræðinga.“

Hafið þið farið fram á slíkar kjarabætur? „Já, í gegnum tíðina. En við erum í dálítið annarri stöðu en t.d. hjúkrunarfræðingar. Við erum ekki með stofnanasamninga og fáum því greitt samkvæmt lágmarkssamningi. Það hefur verið talað um að ekki sé svigrúm til aukagreiðslna.“

Á okkar raddir hefur ekki verið hlustað

Er þetta fullreynt? „Já, við höfum ekki náð eyrum stjórnenda spítalans. Við höfum barist fyrir ýmsum úrbótum sem miða að því að bæta vinnuaðstæður, draga úr álagi og bæta þjónustu spítalans og öryggi sjúklinga. En á okkar raddir hefur ekki verið hlustað í mjög langan tíma.“

Ómar segist þekkja dæmi þess að kjarasamningar almennra lækna séu brotnir á Landspítalanum. „Það er fólk auðvitað mjög óánægt með. Til dæmis eru dæmi þess að yfirvinna sé ekki greidd, þó að fólk vinni sannarlega yfirvinnu sem er nauðsynleg til að ljúka verkefnum.“

Hefur heyrt af því að fleiri íhugi uppsagnir

Veistu til þess að fleiri en þessir 20 sem þegar hafa sagt upp, séu að íhuga uppsögn? „Ég hef heyrt af því. Ég get ekki staðfest það.“

Hvaða áhrif myndu uppsagnirnar hafa á starfsemi Landspítalans, komi þær til framkvæmda? „Þær myndu hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar. Það er enginn mannskapur upp á að hlaupa og enginn er í aðstöðu til að bæta við sig vinnu. Almennir læknar eru að vinna á öllum deildum spítalans, á öllum vöktum. Við erum að manna vaktir, manna deildir, aðstoða í aðgerðum og framkvæma þær. Ég held að þetta gæti haft gríðarlega alvarleg áhrif á starfsemi spítalans í heild.“

„Þetta er fólk sem hefur metnað fyrir vinnunni sinni, skila góðu starfi og hugsa vel um sína sjúklinga. En það telur sig ekki fá laun miðað við menntun og álag í starfi. Það er óánægt með þá aðstöðu sem því er búin til að vinna starfið. En það virðist ekki vera hægt að ná eyrum stjórnenda.“ 

Frá Landspítalanum.
Frá Landspítalanum. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina