Lög um happdrætti úr nefnd

Netpóker nýtur mikilla vinsælda.
Netpóker nýtur mikilla vinsælda. Mynd/pkr.com

Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur afgreitt frumvarp til laga um breytingu á lögum um happdrætti úr nefndinni og leggur hún til að frumvarpið verði samþykkt svo gott sem óbreytt.

Meðal þess sem lagt er til í frumvarpinu er að setja á fót sérstaka stofnun, Happdrættisstofu, sem ætlað er að hafa faglegt og kerfisbundið eftirlit með þessari starfsemi hér á landi og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um þróun happdrættismála.

Þá er lagt til bann við greiðsluþjónustu til þess að koma í veg fyrir ólöglega netspilun á erlendum og innlendum vefsíðum. Í álitinu segir meðal annars: „Frumvarpið miðar að því að stöðva þá efnahagslegu starfsemi að bjóða fjárhættuspil. Eftir sem áður verða erlendar heimasíður sem bjóða upp á fjárhættuspil aðgengilegar í gegnum netið þótt umrætt frumvarp verði samþykkt – þrátt fyrir að starfsemi þeirra sé ólögleg samkvæmt íslenskum lögum. Frumvarpið sem slíkt takmarkar því ekki tjáningu eða aðgang að upplýsingum.“

Þá segir að þó að nefndin taki undir sjónarmið um að fara eigi varlega í hvers konar takmarkanir á tjáningarfrelsi og netfrelsi sjái hún ekki að neinar slíkar takmarkanir sé að finna í frumvarpi þessu sem ætlað er að sporna við ólöglegri happdrættis- og veðmálastarfsemi, þ.m.t. skipulagðri glæpastarfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka