Skattkerfið orðið að sérstöku vandamáli

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þeir upplýstu okkur um það að skattkerfið sé orðið svo flókið að það er orðið sérstakt vandamál í sjálfu sér,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi í morgun og vísaði þar til helstu sérfræðinga landsins í skattamálum sem mætt hefðu á fund efnahags- og viðskiptanefndar þingsins í morgun.

Guðlaugur sagði að sérfræðingarnir hefðu upplýst nefndarmenn um það að skattsvik og skattaundanskot hafi stóraukist og „að þeirra tilfinning væri sú að skattar væru orðnir það háir að það væri orðið svona réttlætanlegt að borga þá ekki.“ Þeir hafi ennfremur rifjað upp að tilgangurinn með því að koma á staðgreiðslukerfi skatta á sínum tíma hafi verið að einfalda skattkerfið.

„Hver hagnast á því að hafa skattkerfið flókið?“

„Ég er algerlega meðvitaður um það að það eru misjafnar skoðanir á því hvort skattar eigi að vera háir eða lágir. En getum við ekki sameinast um það í það minnsta að hafa skattkerfið einfalt. Hver hagnast á því að hafa skattkerfið flókið?“ sagði Guðlaugur Þór og spurði hvort það væri sérstakt markmið að útvega endurskoðendum fleiri verkefni. Þess þyrfti ekki enda vissi hann til þess að þeir hefðu meira en nóg að gera.

Sigfús Karlsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, tók undir með Guðlaugi Þór og sagðist koma úr þeim starfsgeira sem hann nefndi til sögunnar. „Því miður er þetta bara orðið þannig, og ég held að þessir sérfræðingar sem voru á nefndarfundi hjá okkur áðan hafi bara rétt fyrir sér um það að menn telja að skattar séu orðnir það háir hér í þessu landi að fólki finnist það réttlætanlegt að stinga undan skatti. Þetta er bara hræðileg staðreynd.“

„Einfaldara skattkerfi er ekki endilega réttlátara“

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði það áhyggjuefni þegar þingmenn væru farnir að gefa því undir fótinn að það gæti verið réttlætanlegt að svíkjast undan skatti vegna þess að skattkerfið sé orðið of flókið. Þá gagnrýndi hún ummæli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, í fjölmiðlum þess efnis að afnema bæri þrepaskiptingu skattkerfisins. Sagði hún að þar með vildu menn afnema þau jöfnunaráhrif sem þrepaskiptingin hefði haft.

„Markmiðið er að hafa skattkerfið réttlátt og dreifa byrðunum með réttlátum hætti. Einfaldara skattkerfi er ekki endilega réttlátara skattkerfi,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar ennfremur í þessari umræðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert