Gunnar hyggst stefna Pressunni

Gunnar Þorsteinsson, fyrrverandi forstöðumaður Krossins.
Gunnar Þorsteinsson, fyrrverandi forstöðumaður Krossins. Ómar Óskarsson

Gunnar Þorsteinsson, fyrrverandi forstöðumaður Krossins, hyggst stefna Vefpressunni vegna fréttaflutnings af konum sem sökuðu Gunnar um kynferðisbrot. Lögmaður Gunnars segir pistil Björns Inga Hrafnssonar, sem birtist á Pressunni í gær, gefa skýrt til kynna að kröfu um skaðabætur og afsökunarbeiðni sé hafnað.

Gunnar krefst samtals 15 milljóna í skaðabætur og afsökunarbeiðni frá tveimur konum í trúfélaginu og frá Vefpressunni, fimm milljóna frá hverjum aðila fyrir sig, vegna umfjöllunar vegna ásakana um kynferðisbrot. Konurnar, þær Ásta Knútsdóttir og Sesselja Engilráð Barðdal, hafa frest fram til miðvikudags til að taka afstöðu til kröfunnar.

Sjö konur tilkynntu um meint brot Gunnars árið 2010, en brotin voru í öllum tilvikum fyrnd og þeim var vísað frá.

Margvíslegt tjón vegna umfjöllunarinnar

„Við sendum bréf með þessari kröfu fyrir helgina til kvennanna tveggja og til stjórnarformanns Vefpressunnar og þáverandi ritstjóra miðilsins [Björns Inga Hrafnssonar og Steingríms Sævars Ólafssonar],“ segir Vefpressan sem fékk frest fram til loka skrifstofutíma á föstudaginn að bregðast við kröfunni, en stjórnarformaðurinn óskaði eftir því að sá frestur yrði framlengdur fram á miðvikudaginn í þessari viku. En síðan birtist pistill á Pressunni í dag sem ekki er hægt að skilja á annan veg en að kröfunum sé hafnað.“

Á hverju byggir þessi krafa? „Fjárhæðin byggir á því að minn umbjóðandi telur sig hafa orðið fyrir verulegu tjóni vegna umfjöllunarinnar. Hann neyddist til að láta af sínu starfi, strax á fyrstu viku eftir að þessi umfjöllun hófst. Síðan hefur þessi umfjöllun valdið margvíslegu tjóni, bæði fjárhagslegu og öðru.“

Að sögn Einars Huga er krafan gegn Vefpressunni að hluta til byggð á þeim ummælum sem konurnar tvær létu falla. „Auðvitað var fjallað gríðarlega mikið um þetta mál, en umfjöllun Pressunnar gekk lengst og minn umbjóðandi telur að það hafi verið farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins og að þar hafi ítrekað verið brotið gegn æru hans.“

Pistill Björns Inga Hrafnssonar

Í umræddum pistli Björns Inga Hrafnssonar, sem nú er ritstjóri, útgefandi og stjórnarformaður Vefpressunnar og birtur er undir fyrirsögninni „Sannleikurinn gerir okkur frjáls“, segir að reyndir blaðamenn með mikla reynslu hafi lagt mikið á sig í fréttaflutningi af ásökunum á hendur Gunnari.

„Allt gert til þess að vinna heimildavinnu blaðamannsins sem best úr garði [svo]. Niðurstaðan var sú að svo mikill fjöldi kvenna hefði sömu sögu að segja af samskiptum sínum við þennan mann, að varla gæti verið tilviljun og saga þeirra og reynsla ætti tvímælalaust erindi við almenning,“ skrifar Björn Ingi. 

„Ég gæti aldrei horft framan í annað fólk ef ég myndi gefast upp nú og afneita frásögnum allra þessara kvenna sem höfðu hugrekki til að stíga fram og segja sögu sína. [...] Löggjafinn verður að sjá til þess að dómsvaldið sé ekki misnotað í þágu þöggunar. Það verður að opna umræðuna, ekki loka henni með því að fjölmiðlum sé hótað og fórnarlömbum sem hafa stigið fram eftir vandlega íhugun. Getum við búið við það að gefið sé veiðileyfi fyrir dómstólum á hendur fjölmiðlum sem segja frá kynferðisofbeldi? Og á hendur fórnarlömbunum? Hafa þau ekki þurft að þola nóg?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert