„Samfélagið er gegnsýrt af hatri og heift“

Stærsta fangelsi landsins er að Litla Hrauni.
Stærsta fangelsi landsins er að Litla Hrauni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir ekkert benda til að langir fangelsisdómar dragi úr líkum á því að menn séu dæmdir aftur til refsingar. Refsingar séu hins vegar að lengjast hér á landi. Hann segir að samfélagið sé gegnsýrt af heift og hatri og fólk vilji sjá blóð renna.

Páll sagði þetta í viðtali við Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, á sjónvarpsstöðinni ÍNN í kvöld. Þeir ræddu þar um fangelsismál og byggingu nýs fangelsis.

Páll sagði að þó að fangelsisrýmum hefði fjölgað á síðustu árum hefði boðunarlisti Fangelsismálastofnunar haldið áfram að lengjast. Ein ástæðan fyrir þessu væri að refsitími fanga væri að lengjast. Fyrir þremur árum hefðu 35 fangar verið með þriggja ára dóm eða lengri. Í dag væru 70 fangar með svo langa dóma.

Björn spurði Páll hvort hann hefði trú á að lengri refsingar drægju úr afbrotum.

„Nei, það held ég alls ekki. Að mínu mati er þetta samfélag gegnsýrt af hatri og heift og menn vilja sjá blóð renna. Rannsóknir sýna, og það er í samræmi við mína reynslu, að þyngri refsingar skila ekki betri árangri. Það sem skiptir meginmáli er að betrun eigi sér stað í fangelsunum. Það skiptir máli að aðbúnaðurinn sé í lagi og öryggið sé í lagi. Það veldur því að endurkomutími lækkar, þ.e.a.s það dregur úr líkum á því að einstaklingar brjóti af sér aftur. Það hlýtur að vera það sem við viljum. Við viljum ekki vista fanga eins og dýr í einhverjum kumböldum. Þeir verða ekki vistaðir í einhverjum gámum upp á heiði,“ sagði Páll.

Páll benti á að í Bandaríkjum væru um 1.000 fangar á hverja 100.000 íbúa. Hér á landi væru um 50 fangar á 100.000 íbúa. Í Bandaríkjunum væri endurkomutíðni fanga hár, en hann væri mun lægri á Norðurlöndunum þar sem betur væri búið að föngum.

Páll Winkel.
Páll Winkel.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert