„Þú ert svo mikill aumingi“

Erlendar rannsóknir benda til að bæði karlar og konur beiti …
Erlendar rannsóknir benda til að bæði karlar og konur beiti ofbeldi í nánum samböndum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þörf er á samfélagslegri umræðu um þá staðreynd að heimilisofbeldi er ekki bundið við að karlar séu gerendur. Konur beita líka karla ofbeldi í nánum samböndum. Þetta segir Ingibjörg Þórðardóttir félagsráðgjafi sem rætt hefur við karla sem upplifað hafa heimilisofbeldi.

Mjög fáar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi á heimilisofbeldi þar sem konur eru gerendur. Árið 1996 var gerð könnun þar sem spurningalisti var lagður fyrir úrtakshóp, bæði karla og konur, alls staðar af landinu. Eingöngu var spurt um líkamlegt ofbeldi.

1,3% kvenna og 0,8% karla upplifðu líkamlegt ofbeldi

1,3% kvenna sem svöruðu sögðust hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi af hálfu núverandi eða fyrrverandi maka á síðustu 12 mánuðum, þar af sögðust 0,9% hafa orðið oftar en einu sinni fyrir ofbeldi. 0,8% karla sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu núverandi eða fyrrverandi maka á síðustu 12 mánuðum, þar af sögðu 0,7% að það hefði gerst oftar en einu sinni. 0,7% kvenna sögðu að um hefði verið að ræða gróft ofbeldi, en 0,3% karla sögðu að um gróft ofbeldi hefði verið að ræða.

14% kvennanna sögðust einhverju sinni á ævinni hafa sætt líkamlegu ofbeldi af hálfu núverandi eða fyrrverandi maka, þar af sögðu 7% af ofbeldið hefði verið gróft. 3,9% karla sögðust hafa upplifað líkamlegt ofbeldi af hálfu núverandi eða fyrrverandi maka. Í 1,2% tilvika hefði verið um gróft ofbeldi að ræða.

Árið 2010 beittu stjórnvöld sér aftur fyrir rannsókn á ofbeldi, en þá var eingöngu spurt um ofbeldi gegn konum, m.a. ofbeldi í nánum samböndum. Niðurstaðan var að 22,4% hefðu einhvern tímann upplifað ofbeldi af hálfu maka eða fyrrverandi maka. 1,6% höfðu upplifað ofbeldið á síðustu 12 mánuðum.

Tvær aðferðir til að rannsaka heimilisofbeldi

Ingibjörg er í meistaranámi í félagsráðgjöf og í náminu vann hún heimildaritgerð, sem byggð er á erlendum rannsóknum, um konur sem beita karla heimilisofbeldi. Hún hefur unnið með Stígamótum og Kvennaathvarfinu.

„Umræðan um heimilisofbeldi er alltaf um ofbeldi karla gegn konum, en það hefur vantað hér á landi að fólk sé tilbúið til að ræða um konur sem gerendur, þ.e. hvort að konur beiti ofbeldi og hvernig það er þá gert,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg segir að erlendar rannsóknir hafi leitt í ljós að það sé talsvert algengt að konur beiti karla ofbeldi. Hún segir að það séu til mismunandi leiðir til að mæla heimilisofbeldi. Annars vegar eru svokallaðar femínískar leiðir þar sem byggt er á gögnum frá t.d. kvennaathvörfum, sjúkrahúsum og lögreglu. Þessi aðferð gefur til kynna að mikill meirihluti ofbeldismanna séu karlar og meirihluti þolenda konur.

Ef notaðir eru svokallaðir CTS-listar til að mæla ofbeldið, en þeir byggjast á því að leggja spurningalista fyrir úrtakshóp sem á að endurspegla þjóðina eða ákveðinn hóp fólks, þá koma allt aðrar niðurstöður. Slíkar rannsóknir benda til að það sé jafnalgengt að konur beiti karla ofbeldi eins og að karlar beiti konur ofbeldi. Hvorug aðferðin er hafin yfir gagnrýni og talað hefur verið um að þessir listar mæli ekki samhengi þess sem á sér stað þegar ofbeldi er beitt.  Hins vegar er mikilvægt að bregðast við því að þetta geti verið raunin og nauðsynlegt sé að gera rannsóknir á ofbeldi kvenna gegn körlum í parasamböndum.

Svipaðar lýsingar og konur segja frá í kvennaathvörfum

Ingibjörg segir að samkvæmt þessum erlendu rannsóknum beiti konur bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. „Ein rannsókn byggðist á upplýsingum sem bárust í hjálparsíma fyrir karla í Bandaríkjunum sem beittir voru ofbeldi. Lýsingar sem þar voru birtar um ofbeldi af hálfu eiginkvenna voru ekkert öðruvísi en þeirra sem koma til kvennaathvarfanna, þar sem konur eru að lýsa ofbeldi karla.“

Í mörg ár hafa verið í boði ýmis úrræði fyrir konur sem beittar eru ofbeldi. Frá því Samtök um kvennaathvarf voru stofnuð árið 1982 hafa 3.400 konur dvalið þar um lengri eða skemmri tíma. Konur geta einnig leitað til Stígamóta, á Drekaslóð og víðar. Í allmörg ár hefur einnig verið boðið upp á úrræði fyrir karla sem beita konur ofbeldi og vilja leita sér hjálpar.  Fá úrræði eru hins vegar í boði fyrir karla sem beittir eru heimilisofbeldi. „Karlar í þessari stöðu geta hringt í Kvennaathvarfið. Þeir eiga ekki kost á að koma þar inn í hús, en geta fengið viðtöl og ráðgjöf í gegnum síma. Fáir karlar hafa hins vegar samband þangað vegna þess að þetta heitir Kvennaathvarf og er hugsað til að mæta þörfum kvenna.“

Drekaslóð veitir körlum og konum sem hafa orðið fyrir ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi eða ofbeldi í parasamböndum, aðstoð til að vinna úr reynslu sinni.

Karlar finna fyrir mikilli skömm

Ingibjörg segir engan vafa leika á að karlar eigi erfitt með stíga það skref að leita sér hjálpar. „Viðmót gagnvart körlum sem beittir eru ofbeldi á heimilum er ekki það sama og gagnvart konum. Það fylgir því meiri skömm og það ber á því að ásakanir karlanna þyki ótrúverðugar. Fólk spyr hvers vegna karlinn fari bara ekki, því það sé ekki eins og konan ráði við hann. Það er hins vegar þannig að þegar ofbeldi á sér stað þá er það ekki bara líkamlegi styrkurinn sem skiptir máli. Það er búið að brjóta niður sjálfstraust og sjálfsvirðingu þess sem beittur er ofbeldi og það skiptir engu máli hvort viðkomandi er karl eða kona. Karlmennskuímynd, að það sé „ókarlmannlegt“ að vera beittur ofbeldi af konu, getur líka staðið körlum fyrir þrifum. Í raun má kannski segja að umræðan og viðhorfið gagnvart ofbeldi gegn körlum í parasamböndum sé á svipuðum stað og það var gagnvart ofbeldi gegn konum fyrir um 30 árum.

Lengi vel lokaði samfélagið talsvert á kynferðisofbeldi gagnvart körlum. Á undanförnum örfáum árum og sérstaklega í vetur hefur orðið mikil vakning í þeirri umræðu og nú er viðurkennt að karlar eru líka beittir kynferðisofbeldi. Það virðist hins vegar ekki vera eins auðvelt að opna umræðuna um að karlar geti verið beittir ofbeldi í nánum samböndum. Það eru hins vegar margir sem bíða eftir því að þessi umræða opnist.“

Spyrja má hvort það sé ekki karlmanna að hafa forystu um að opna umræðu um þessi mál. Ingibjörg segist geta tekið undir að karlar þurfi að beita sér í þessu máli. „Umræða um ofbeldi almennt, kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum hefur mjög mikið komið frá konum. Ég held að konur og karlar þurfi að hjálpast að við að opna þessa umræðu alveg eins og konur og karlar eiga saman að ræða ofbeldi gegn konum og ofbeldi gegn börnum. Við þurfum að standa saman um að ræða þessi mál og finna lausnir.“

Ingibjörg segir engan vafa leika á að umræða um þessi mál séu nauðsynleg. „Það getur vel verið að við komumst að þeirri niðurstöðu að það sé minna um að konur beiti karla ofbeldi en að karlar beiti konur ofbeldi, en mér finnst að við eigum ekki að ákveða fyrirfram að það sé þannig.“

Hugmyndafræðin á bak við verkefnið Karlar til ábyrgðar, sem felur í sér aðstoð við karla sem beita konur ofbeldi, kemur frá Noregi, en þar er líka í boði meðferð fyrir konur sem beitt hafa ofbeldi. Slík aðstoð er hins vegar ekki í boði hér á landi.

Beita sömu aðferðum við að brjóta fólk niður

Ingibjörg hefur í störfum sínum fyrir Stígamót og Kvennaathvarfið rætt við karla og konur sem hafa verið þolendur heimilisofbeldis. Karlarnir hafa verið mun færri en konurnar. „Sögur karlanna skera sig ekki úr sögum kvennanna. Konur beita sömu aðferðum og karlar við að stýra hegðun karlanna, þ.e. að lesa tölvupósta, skoða símanotkun, spyrja „hvar varstu, með hverjum, af hverju varstu að tala við þennan eða þessa?“ Þetta eru þessar leiðir sem hafa verið notaðar til að stjórna og einangra maka frá vinum og fjölskyldu.“

Ingibjörg segir að konur beiti einnig sömu aðferðum og karlar við að brjóta fólk niður. „Konur segja, „þú ert svo mikill aumingi, þú getur aldrei gert neitt“ o.s.frv. Ég hef líka talað við karla sem hafa verið beittir líkamlegu ofbeldi heima hjá sér.“

Óska eftir viðmælendum

Mbl.is hefur áhuga á að ræða við karlmenn sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi af hálfu maka eða fyrrverandi maka. Þeir sem vilja segja sögu sína geta haft samband við greinarhöfund.

„Viðmót gagnvart körlum sem beittir eru ofbeldi á heimilum er …
„Viðmót gagnvart körlum sem beittir eru ofbeldi á heimilum er ekki það sama og gagnvart konum,“ segir Ingibjörg. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
Í könnun sem gerð var árið 1996 sögðu 0,8% karla …
Í könnun sem gerð var árið 1996 sögðu 0,8% karla að þeir hefðu orðið fyrir líkamlegu ofbeldi af hálfu núverandi eða fyrrverandi maka á síðustu 12 mánuðum. Ekki var spurt um andlegt ofbeldi. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert