Brjóstapúðamáli hvergi nærri lokið

Sýktur örvefur myndaðist þegar sílikon lak úr púðum Önnu Lóu.
Sýktur örvefur myndaðist þegar sílikon lak úr púðum Önnu Lóu. mbl.is

Kona, sem lét fjarlægja sprungna PIP-sílikonpúða úr brjóstum sínum og hefur glímt við margvíslegan heilsubrest sem rakinn er til púðanna, segir enga eftirfylgni vera af hálfu heilbrigðisyfirvalda. Landlæknir segir eftirlit á ábyrgð lýtalækna og þeirra kvenna sem eru með púðana.

Sílikon lak úr púðum konunnar og olli henni margvíslegum skaða, meðal annars er efnið í eitlum hennar og vefir í líkama hennar dóu. Hún leitaði sér lækninga í Bandaríkjunum.

Átti erfitt með gang og andardrátt

„Ég átti erfitt með gang, erfitt með andardrátt og var með útbrot um allan líkamann. Þessi einkenni hurfu þegar púðarnir voru fjarlægðir,“ segir Anna Lóa Aradóttir sem lét fjarlægja sprungna PIP-púða úr brjóstum sínum í byrjun síðasta árs. Hún fann þó áfram fyrir ýmsum kvillum sem hún telur að rekja megi til púðanna og sílikons sem úr þeim lak. „Ég var áfram veik með verki og hita. En læknar fundu ekki orsökina.“

Anna Lóa sendi púðana í rannsókn til kanadísks sérfræðings í brjóstapúðum, dr. Blais. Niðurstaða hans var að 80 gr af olíukenndu sílikonefni hefðu lekið út í vefina í líkama hennar, en í hvorum púða voru 285 gr af efninu. „Brjóstvöðvarnir voru illa farnir og mikill vefjadauði hafði átt sér stað. Að auki höfðu púðarnir ekki verið sótthreinsaðir. Þá hafði sílikonið lekið í gegnum brjóstvöðvann og inn að beini.“

Jens Kjartansson, yfirlæknir lýtalækningadeildar Landspítalans og einn þeirra lækna sem notuðu PIP-púðana, segir ráðlegt að fjarlægja púðana, þeir séu líklegri til að rifna en aðrir sílikonpúðar.

Fær ekki upplýsingar

Íslensk stjórnvöld tóku þá ákvörðun í byrjun árs 2012 að bjóða öllum konum með PIP-brjóstapúða ómskoðun á brjóstum. Þær konur sem þess óskuðu gátu síðan farið á lýtalækningadeild Landspítalans til að láta fjarlægja púðana sér að kostnaðarlausu, án þess þó að fá nýja púða. Margar þáðu þetta boð en margar fóru einnig beint til eigin lýtalæknis til að fá aðgerðina framkvæmda og fá nýja púða.
„Við hjá Embætti landlæknis höfum því engar upplýsingar um hversu margar íslenskar konur í dag ganga með PIP-brjóstapúða. Persónuvernd hafnaði ósk landlæknis um aðgang að gögnum um aðgerðir vegna brjóstafyllinga og embættið hefur því ekki fengið neinar upplýsingar frá lýtalæknum um aðgerðir með innsetningu á PIP-brjóstapúðum eða hverjar fóru í þær fyrir utan þær aðgerðir sem nú hafa verið framkvæmdar á Landspítalanum,“ segir Geir Gunnlaugsson landlæknir.
Frá aðgerðinni sem Anna Lóa fór í.
Frá aðgerðinni sem Anna Lóa fór í. mbl.is
Anna Lóa Aradóttir
Anna Lóa Aradóttir mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert