„Síðustu þrír kílómetrarnir langir“

Gunnlaugur við endamarkið
Gunnlaugur við endamarkið Ljósmynd/Sveinn Gunnlaugsson

Gunnlaugur Júlíusson hlaupari varð í dag fjórði í Thames-hlaupinu, en hann kom í mark á 77 klukkustundum og 32 mínútum.

„Það voru 37 sem byrjuðu hlaupið og síðast þegar ég vissi var 21 fallinn út,“ segir Gunnlaugur. „Það er alltaf dálítið merkilegt hvað síðustu þrír kílómetrarnir eru langir, þeir eru örugglega 10. Auðvitað er ákveðin spenna þegar maður klárar svona þriggja sólarhringa dæmi.“ Hlaupið er álíka langt og 10 maraþonhlaup.

Hann segir hlaupið hafa gengið áfallalaust fyrir sig. Lykilinn að árangrinum segir hann hafa verið að sofa ekkert meðan á hlaupinu stóð. „Ég notaði næturnar. Ein af ástæðum þess hvað ég enda ofarlega í hlaupinu er að ég svaf ekki neitt þessa þrjá sólarhringa, heldur var bara alltaf að meðan aðrir gáfu sér tíma til að sofa,“ segir Gunnlaugur.

„En maður borðar náttúrlega eins og maður getur í sig látið. Það er grundvallaratriði til að takast á við svona verkefni að vera útpumpaður af góðum mat.“ Gunnlaugur segir hlaupið hafa endað í þorpinu Streatly. „Það var farið ansi vítt um suðurhluta Englands í þessu hlaupi. Mér skilst að þetta sé lengsta svona hlaup í Evrópu.“

Hann segist ekki vita hvað hann tekur sér fyrir hendur næst. „Þetta snýst allt saman bara um hvað maður hefur mikinn tíma og peninga.“

Frétt mbl.is: Nær að klára hlaupið á 80 tímum

Frétt mbl.is: „Væri til í tvöfaldan hamborgara“

mbl.is