Mýturnar um múslima

Gert er ráð fyrir níu metra háum turni á fyrirhugaðri …
Gert er ráð fyrir níu metra háum turni á fyrirhugaðri mosku í Sogamýri. AP

Í kjölfar samþykktar borgarráðs á deiluskipulagi þar sem gert er ráð fyrir að Félag múslima á Íslandi fái lóð undir mosku í Sogamýri hafa miklar umræður um réttmæti slíkrar byggingar átt sér stað. Nokkrir hópar eru nú á Facebook auk þess sem margar greinar hafa verið ritaðar þar sem fólk ýmist mótmælir eða lýsir yfir stuðningi við bygginguna. Ljóst er að skoðanir eru bæði sterkar og skiptar. Ýmsum fullyrðingum er þar haldið fram, en hvað er til í þeim? Hér verður stiklað á nokkrum þeim atriðum sem upp hafa komið í umræðunni, þó listinn sé ekki tæmandi.

Engin vandamál að sögn lögreglu

Í kynningartexta mótmælasíðunnar „Mótmælum mosku á Íslandi“ sem tæplega 2.000 manns hafa „líkað“ við á Facebook segir: „Það er öryggismál að ekki verði leyfð bygging mosku á Íslandi, þar sem undirbúningur hryðjuverka virðist oft eiga upptök sin innan veggja moskunnar.“

Á Íslandi eru tvö trúfélög múslima. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru 465 skráðir í Félag múslima á Íslandi og í Menningarsetri múslima á Íslandi eru 305 félagar. Félag Múslima á Íslandi hefur verið með mosku í húsnæði í Ármúlanum frá árinu 2002, en Menningarsetur múslima á Íslandi hefur verið með mosku í Ýmishúsinu við Skógarhlíð frá október 2012. Moska hefur því verið á Íslandi í 12 ár. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur þeim aldrei borist tilkynning um nokkurs konar vandamál tengt moskunni á þeim tíma.

Hvetja til umburðarlyndis

Á sömu síðu segir: „Íslam bannar múslimum að aðlagast gestgjafaþjóðfélaginu. Múslimar vingast ekki við kristið fólk heldur  berjast við það og sýna því fjandskap.“

Í lögum Félags múslima á Íslandi segir að markmið félagsins sé að koma í veg fyrir hvers konar öfgar, ofstæki og yfirgang í nafni trúarbragða, íslam eða annarra, og að efla virðingu fyrir og umburðarlyndi gagnvart öllum trúarbrögðum. Þá segir að markmið félagsins sé að vinna gegn hvers konar mismunum á grundvelli uppruna, ætternis eða trúarbragða.

Á vefsíðu Félags múslima á Íslandi kemur fram að félagið hefur staðið fyrir þvertrúarlegum samkomum þar sem einstaklingar frá ýmsum trúfélögum koma saman, þar á meðal bahá'íargyðingarkristnirmúslimar og búddistar. Þar kemur fram að samkomurnar séu haldnar til að árétta mikilvægi gagnkvæmrar virðingar meðal trúarbragða og stuðla  friði.

Svipaður fjöldi á hvert bænahús múslima og kristinna

Í umræðunni hafur einnig verið bent á að skráðir meðlimir í Félagi múslíma á Íslandi séu aðeins 465 og þá hvort nauðsyn sé á að svo lítill hópur fái svo stóra lóð undir bænahús. Samkvæmt vefsíðunni www.tru.is eru 332 kirkjur á landinu og 41 bænahús og kapellur. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru meðlimir þjóðkirkjunnar 245.184. Það eru því 658 safnaðarmeðlimir þjóðkirkjunnar á hvert bænahús. 

Turn sem setur svip á borgina

Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir um níu metra háum bænaturni á moskunni og hafa nokkrir bent á að svo hár turn muni gnæfa yfir borgarmyndina. Til að setja hæð turnsins í samhengi má nefna að turn Langholtskirkju, sem er hvað nálægust, er 29,7 metrar og verður turninn því um 1/3 af hæð Langholtskirkjuturns. Til enn frekari samanburðar má nefna að turn Hallgrímskirkju er 73 metrar og verður turninn því tæplega 1/8 af hæð Hallgrímskirkjuturns.

Þá hefur nokkuð farið fyrir ábendingum um mögulega hávaðamengun sökum bænakalls. Í hinni almennu mosku er venjan sú að hafa bænakall fimm sinnum á dag. Bænakall tíðkast í fleiri trúarbrögðum og er klukkuspil í kirkjum eitt þeirra. Samkvæmt tru.is eru engar opinberar reglur um klukknahringingar í kirkjum á Íslandi, en meginreglan er bænaslög þrisvar á dag. Þetta er þó mismunandi eftir kirkjum og á höfuðborgarsvæðinu eru meðal annars þrjár kirkjur sem slá tímaslög á heila tíma hverrar klukkustundar.

Umskurður ekki venja á Íslandi

Á nokkrum síðum á Facebook er það gagnrýnt að börn múslima séu umskorin, en þar segir í athugasemd: „Umskurður er skylda fyrir sérhvern karl og konu með því að skera hluta forhúðarinnar af limnum, en umskurður kvenna fer fram með þeim hætti að skera út snípinn (hann er kallaður á arabísku Hufaad).“

Umskurður stúlkna á Íslandi er bannaður með lögum, en samkvæmt 218. gr. a. almennra hegningarlaga er lögð refsing við að fjarlægja kynfæri stúlkna að hluta eða öllu leyti. Umskurður á drengjum er ekki bannaður með lögum, en er hins vegar afar sjaldgæfur á Íslandi og nánast einungis framkvæmdur af heilsufarsástæðum. Þá ber að tilkynna alla umskurði til barnaverndarnefndar.

Tvö lönd með meirihluta múslima banna kirkjur

Í nokkrum athugasemdum síðunnar segir að ekki eigi að leyfa mosku á Íslandi, þar sem kirkjur eru ekki leyfðar í Miðausturlöndum. Íslam er höfuðtrúarbrögð 49 landa og kirkjur eru bannaðar í tveimur þeirra, í Sádi-Arabíu og Máritaníu. Í Máritaníu var lagt bann við kirkjum árið 2006, en þar er trúfrelsi takmarkað við íslam í stjórnarskrá landsins. Í Saudi Arabíu er trúfrelsinu hins vegar ekki settar lagaskorður, en útlegð eða dauðarefsing liggur við því að hverfa frá islam.

Facebook síða hópsins Mótmælum mosku á Íslandi

Facebook síða hópsins Styðjum byggingu mosku á Íslandi

Turn Hallgrímskirkju er 73 metrar, en gert er ráð fyrir …
Turn Hallgrímskirkju er 73 metrar, en gert er ráð fyrir níu metra turni á moskunni í Sogamýri mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Múslimar á Íslandi
Múslimar á Íslandi Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
Ætluð staðsetning moskunnar
Ætluð staðsetning moskunnar
mbl.is