Framleiða stiklur um hinsegin líf

Q - félag hinsegin stúdenta tók þátt í L'Égalité verkefninu …
Q - félag hinsegin stúdenta tók þátt í L'Égalité verkefninu í tengslum við réttindabaráttu hinsegin fólks í Frakklandi. Q

Q - félag hinsegin stúdenta fékk á dögunum styrk frá Evrópu unga fólksins til verkefnis sem þau kalla QTV og fjallar um málefni hinsegin fólks.

„Við fengum hugmyndina að þessu verkefni fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan þar sem hugmyndin var að  taka upp mánaðarlega sketsa sem gefnir yrðu út á netinu,“ segir Guðrún B. Ólafsdóttir, varaformaður félags hinsegin stúdenta og verkefnisstjóri QTV.

„Við fengum styrk frá Evrópu unga fólksins sem við ætlum að nýta í að kaupa myndavélabúnað. Eftir tíu mánaða virði af sketsum ætlum við að klippa þá alla saman í heimildarmynd, ásamt öðru efni sem ekki var gefið út í sketsunum, sem fræðsluefni um hinsegin málefni.“

Guðrún segir stiklurnar verða miðaða að efri bekkjum grunnskóla og fyrstu ár menntaskóla og gerir ráð fyrir að efnið verði allt aðgengilegt á Youtube. Þá stefnir hópurinn að því að talsetja hluta þáttanna á ensku. Áætlað er að heimildarmyndin komi út á hinsegin dögum 2014 og mun hún innihalda umfjöllun um hinsegin líf, fordómafræðslu og almennan fróðleik.

Tvíkynhneigðir mæta fordómum úr báðum áttum

„Við munum fara inn á samkynhneigð, tvíkynhneigð, trans, persónuhneigð (e. pansexual),“ segir Guðrún, en meðal annars munu þættirnir fjalla um fordóma í garð hinsegin fólks. „Fordómar gagnvart hinsegin fólki eru mjög víðtækt hugtak, en það verður fjallað um földu fordómana, innri fordómana, samfélagslegar breytingar og fámennu hópana sem fá sáralitla umfjöllun.“

Guðrún segir að þótt opinberir fordómar gagnvart samkynhneigðum séu á undanhaldi séu fordómar gagnvart transfólki og öðrum hópum enn mjög opinberir. „Margir telja transfólk bara vera klikkað. Svo geta tvíkynhneigðir orðið fyrir fordómum frá bæði gagnkynhneigðum og samkynhneigðum; ýmis fyrir það að vera hinsegin, vegna þess að fólk telji það ekki þora alla leið út úr skápnum eða telji það vera að „prófa sig áfram“.

Margt sem þarf að laga

Hún bendir einnig á að fólk sem tilheyri fleiri en einum slíkum minnihlutahópi geti orðið fyrir aðkasti. „Ef þú ert í tveimur minnihlutahópum sem hvor fyrir sig verða ekki fyrir miklu aðkasti geturðu lent í vanda fyrir það að tilheyra báðum hópunum.“

Guðrún segir stöðu hinsegin fólks vera svipaða hérlendis og á öðrum Norðurlöndum, að undanskildu Grænlandi og Færeyjum. „Leiðréttingarferlið fyrir transfólk hérlendis er langt frá því að vera gott en það er alls ekki slæmt. Það er þó nokkuð margt sem þarf að laga, þótt það sé mun betra hér en á mörgum öðrum stöðum.“

Q - félag hinsegin stúdenta hlaut styrk frá Evrópu unga …
Q - félag hinsegin stúdenta hlaut styrk frá Evrópu unga fólksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert