Segja Strætó njóta ólögmætrar ríkisaðstoðar

Úr safni.
Úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Félag hópferðaleyfishafa hefur sent formlega kvörtun til innanríkisráðuneytis þar sem aðgerða er krafist aðgerða vegna ólöglegra ríkisstyrkja til Strætó bs., sem er fyrirtæki í opinberri eigu, sem á í samkeppni á ferðamannamarkaði. Félagið hefur jafnframt sent kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar við Strætó.

Félag hópferðaleyfishafa sendi innanríkisráðuneytinu bréf þess efnis 12. ágúst og ESA degi síðar. 

Fram kemur í fréttatilkynningu, að með 7. gr. laga nr. 73/2001 hafi landshlutasamtökum sveitarfélaga verið veitt heimild til að hafa umsjón með almenningssamgöngum hverju á sínu svæði. Strætó hafi í öllum tilfellum annast þetta úthlutunarferli fyrir landshlutasamtökin.

Strætó í beinni samkeppni við hópferðafyrirtæki

„Strætó bs. er nú komið í beina samkeppni við hópferðafyrirtæki landsins með gríðarlegan fjárstuðning frá opinberum aðilum í forskot. Þróunin er enn alvarlegri þegar litið er til flutninga með erlenda ferðamenn. Sem dæmi má nefna að þá fóru Samtök sveitarfélaga á Austurlandi fram á lögbann við því að Sterna Travel ehf. skipulegði ferðir fyrir erlenda ferðamenn á Austurlandi. Lögreglan stöðvaði hópferðabíl frá Bílum og fólki ehf. sem var að aka með ferðahóp sem hingað kom til lands á vegum Sternu Travel ehf. Sterna Travel ehf. er ferðaskrifstofa sem markaðssetur sínar ferðir nær eingöngu erlendis. Lögbannið var að sjálfsögðu fellt úr gildi fyrir dómstólum.

Óháð því hvort rétt sé að veita einkaleyfi til almenningssamgangna á ákveðnum leiðum – eður ei – þá getur einokun og opinber fjárstuðningur til ákveðinna aðila á ferðamannamarkaði aldrei staðist reglur um frjálsa samkeppni,“ segir í tilkynningunni.

Óttast að markaðurinn muni stórskaðast

Þá segir, að um þessar mundir séu landshlutasamtök sveitarfélaga að taka til sín allar almenningssamgöngur og öðrum aðilum sem sinna hópferðum sé hótað lögbanni, en landshlutasamtökin vilji til að mynda banna flutninga með erlenda ferðamenn í öllu því sem þau skilgreini sem „áætlunarflutninga“ og erlendum ferðamönnum sé beint í strætisvagna. Þá segir, að flutningar Strætó séu meira að segja markaðssettir á ensku.

„Miklu skiptir að þessi gríðarlega skakka samkeppnisstaða verði leiðrétt hið allra fyrsta, ella blasir við að markaðurinn muni stórskaðast vegna hins ólögmæta og óréttláta aðstöðumunar sem Strætó bs. og tengdum félögum hefur verið veittur umfram almenn hópferðafyrirtæki,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert