Sumarhús víða uppbókuð næstu helgi

Svo virðist sem margir ætli að dvelja í sumarhúsum næstu …
Svo virðist sem margir ætli að dvelja í sumarhúsum næstu helgi.

Svo virðist sem margir ætli að leggja land undir fót þegar líður á vikuna og dvelja í sumarhúsum fram yfir helgi. Nemendur í grunnskólum Reykjavíkurborgar fá vetrarfrí næstkomandi föstudag, mánudag og þriðjudag, og fá því langa helgi. Öll orlofshús og íbúðir VR eru uppbókuð næstu helgi og hafa fleiri sem koma að útleigu sumarhúsa einnig orðið varir við auknar bókanir. Þá virðast einnig margir ætla út fyrir landsteinana. 

Langt síðan allt var uppbókað

„Það er langt síðan allt var uppbókað þessa helgi,“ segir Þórunn Jónsdóttir, umsjónarmaður orlofshúsa hjá VR. Mikil eftirspurn var eftir orlofshúsum og íbúðum félagsins og hafi eignirnar farið fljótt út þegar bókanir hófust. Þórunn segir þessa helgi, þegar vetrarfríin eru í skólunum, alltaf mjög vinsæla.

„Það komast færri að en vilja. Þessar helgar eru alltaf vel bókaðar og margir taka lengri helgar,“ segir Þórunn. „Það er gott að fólk er að gera eitthvað með börnunum sínum.“ VR á meðal annars eignir í Miðhúsaskógi, í Húsafelli, í Stykkishólmi, á Flúðum og á Akureyri.

Suður- og Vesturlandið vinsælt

Að sögn Guðmundar Lúthers Hallgrímssonar, starfsmanns sumarhúsamiðlunarinnar Búngaló, hefur töluvert mikið verið bókað af sumarhúsum og íbúðum næstu helgi. Hann segist hafa orðið var við þó nokkra aukningu milli helga, ef miðað er við síðustu helgar.

Aðspurður hvaða svæði séu vinsælust næstu helgi segir Guðmundur að flestir leigjendur komi af höfuðborgarsvæðinu. „Flestir vilja helst ekki fara of langt að heiman,“ segir hann og bætir við að flestir setji markið við að aka í eina og hálfa klukkustund frá höfuðborginni. „Suður- og Vesturland eru vinsælustu áfangastaðir leigjenda,“ segir Guðmundur.

Mikið bókað í styttri ferðir

Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, er mikið bókað í styttri ferðir um helgina, til að mynda í flug til Kaupmannahafnar, Parísar og Berlínar. Þegar er fullt í einhver flug til baka um helgina og eftir helgina. Þá hafa margir bókað pakkaferð til Brighton á Bretlandi um helgina.

Hún segir að starfsmenn WOW air hafi fundið fyrir mikilli eftirspurn í kringum langar helgar sem þessar. „Það er augljóst að foreldrar nýta tímann til að fara með börnunum í langar helgarferðir,“ segir Svanhvít.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert