Fjórir milljarðar aukalega til heilbrigðismála

Framlög til heilbrigðismála verða aukin um 4 milljarða samkvæmt tillögum meirihluta fjárlaganefndar sem afgreiddar voru úr nefndinni í gærkvöldi. Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri fá um 3,3 milljarða og heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni rúmlega 600 milljónir.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segir að tillögurnar einkennist af því að sparað er í ríkisútgjöldum til að skapa svigrúm fyrir brýn verkefni í heilbrigðismálum. „Meirihluti fjárlaganefndar er ánægður með hvernig tókst að forgangsraða í þágu heilbrigðismála og í þágu þjóðarinnar allrar á þessum skamma tíma sem liðinn er frá kosningum,“ segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og tekur fram að hún sé ánægð með þær jákvæðu breytingar sem orðið hafi á frumvarpinu.

Sparnaður greiddur út

Aukin aðhaldskrafa verður gerð á hendur ráðuneytunum. Skorið verður meira niður hjá utanríkisráðuneytinu en öðrum ráðuneytum. Gert er ráð fyrir að framlög til þróunarmála verði svipuð og á síðasta ári en það þýðir að þau lækka um hálfan milljarð frá því sem er í ár.

Barnabætur verða ekki lækkaðar en vaxtabætur skertar hjá þeim sem hafa hæstar tekjur. Gert er ráð fyrir því að tímabundin heimild til að taka út séreignarsparnað verði framlengd og að það skili um 500 milljónum í ríkissjóð. Þá er reiknað með að fjársýsluskatturinn verði ekki lækkaður eins mikið og boðað var í fjárlagafrumvarpi.

Fram hefur komið í þinginu að skattstofnar skila meiri tekjum í ár en gert var ráð fyrir og í framhaldi af því er gert ráð fyrir meiri tekjum á næsta ári en í fyrri áætlunum.

Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar mótmæltu því í gærkvöldi að fjárlagafrumvarpið skyldi hafa verið afgreitt úr fjárlaganefnd án nefndarálits meirihlutans. Ákveðið var að boða nefndina aftur til fundar seint í gærkvöldi til að afgreiða málið að nýju. Þá var málið afgreitt á fimm mínútum.

Meirihluti fjárlaganefndar ákvað að taka fjárlagafrumvarpið út úr nefnd til 2. umræðu á fundi í kvöldmatarhléi í gærkvöldi. Verulegar breytingar eru gerðar á frumvarpinu. Reiknað var með að því yrði dreift á þinginu um hádegisbilið í dag. Önnur umræða á síðan að hefjast á morgun, föstudag.

Ekki í samræmi við þingsköp

Fjáraukalög fyrir árið 2013 voru rædd á kvöldfundi Alþingis í gærkvöldi. Við þá umræðu mótmæltu þingmenn úr stjórnarandstöðunni því að fjárlagafrumvarpið hefði verið afgreitt úr nefnd án nefndarálits. Fullyrti Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna, meðal annars að þetta gengi í berhögg við þingskapalög.

Að sögn Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, var fjárlagafrumvarpið unnið í mikilli sátt og í því eru margar breytingatillögur til hagsbóta fyrir land og þjóð. Hún sagðist þó taka fram að nú væru fjáraukalög á dagskrá, ekki fjárlög, og krafðist þess að forseti Alþingis úrskurðaði um það hvort fjárlaganefnd hefði í raun brotið þingskapalög.

Enn í fjárlaganefnd

Katrín Júlíusdóttir og Helgi Hjörvar, þingmenn Samfylkingarinnar, sögðust líta svo á að málið væri enn í fjárlaganefnd, þar sem meirihlutinn hefði ekki skilað nefndaráliti.

Eftir hlé sem gert var á umræðunni greindi Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, frá því að fjárlaganefnd myndi koma saman til fundar síðar um kvöldið til að afgreiða fjárlagafrumvarpið á ný út úr nefndinni og var það gert.

mbl.is

Bloggað um fréttina