Svartan reyk lagði frá íbúðinni

Frá vettvangi
Frá vettvangi Víkurfréttir/Hilmar Bragi

„Við fáum tilkynningu um mikinn reyk við Mávabraut rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi og förum á staðinn. Þegar ég kem að framan mætir mér mikill svartur reykur út um útidyrnar. Ég kalla inn til þess að athuga hvort einhver sé inni í íbúðinni en fæ engin svör,“ segir Sigurður Skarphéðinsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, en hann var einn af þeim fyrstu til þess að mæta á vettvang þegar eldur kom upp í íbúðarhúsi í Keflavík í gærkvöldi.

Aðspurður kveðst Sigurður því næst hafa látið íbúa á efri hæð hússins vita að eldur væri laus á jarðhæðinni en tvennt var í íbúðinni þegar eldurinn kom upp, hjón á miðjum aldri, og voru þau að sögn Sigurðar staðsett inni í svefnherbergi.

Um svipað leyti og slökkviliðsmenn voru að undirbúa reykköfun braut nágranni rúðu í svefnherbergisglugganum og hóf að aðstoða íbúa við að komast út. Lögreglumenn komu svo til aðstoðar skömmu síðar.

Að sögn Sigurðar var fólkið sótsvart í framan og flutt á sjúkrahús til skoðunar. Það mun þó hafa sloppið án teljandi meiðsla og var útskrifað af sjúkrahúsi að lokinni skoðun.

Gríðarlegur hiti vegna eldsins

Spurður hvort mikill eldur hafi verið í húsinu kveður Sigurður nei við: „Það var reyndar ekki mikill eldur en eldur hafði greinilega logað lengi því íbúðin var mjög illa farin.“ Bendir Sigurður á að svefnherbergishurðin hafi verið lokuð þegar eldurinn kom upp og kann það að hafa átt sinn þátt í að ekki fór verr þar sem reykur átti ekki jafn greiða leið inn í herbergi fólksins.

Þótt eldur hafi ekki verið mikill segir Sigurður ljóst að mjög mikill hiti hafi verið inni í íbúðinni og voru rúður t.a.m. sprungnar að innan.

Vegsummerki benda til að eldur hafi kviknað í sófasetti sem staðsett var í stofu íbúðarinnar. Nánari upplýsingar um upptök eldsins liggja hins vegar ekki fyrir að svo stöddu en lögreglan hóf rannsókn strax að loknu slökkvistarfi.

Frétt mbl.is: Manni og konu bjargað út um glugga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert