Einu IPA-verkefni haldið áfram

AFP

Evrópusambandið tilkynnti íslenskum stjórnvöldum í byrjun desember síðastliðins að sambandið ætlaði ekki að fjármagna frekar svokölluð IPA-verkefni (e. Instrument for Pre-Accession) hér á landi í tengslum við umsóknina um inngöngu Íslands í sambandið. Slíkri fjármögnun er ætlað að undirbúa umsóknarríki fyrir inngöngu í Evrópusambandið í gegnum aðlögun að löggjöf, stöðlum og stefnum sambandsins.

Fjármögnun eins IPA-verkefnis hefur Evrópusambandið hins vegar ekki hætt en það er rekstur Evrópustofu, upplýsingamiðstöðvar sambandsins. Peter Stano, talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins, segir í samtali við mbl.is að ástæðu þess sé sú að þó Evrópustofa sé fjármögnuð með IPA-fjármagni komi það ekki í gegnum IPA-landsáætlunina fyrir Ísland heldur í gegnum upplýsinga- og samskiptaáætlun framkvæmdastjórnarinnar sem nái til allra umsóknarríkja að sambandinu.

Evrópustofa hóf rekstur í byrjun árs 2012 en samið var um rekstur hennar til tveggja ára um mitt ár 2011. Sá samningur rann út síðastliðið sumar en var framlengdur um ár og rennur framlengingin því út í sumar. Heimilt er hins vegar samkvæmt útboðsgögnum vegna Evrópustofu að framlengja starfsemi hennar að hámarki til sumarsins 2015. Evrópustofa er rekin af almannatengslaskrifstofunni Athygli samkvæmt samningi við þýska fyrirtækið Media Consulta. Í samtali við mbl.is segir Stano að ákvörðun um það hvort rekstri Evrópustofu verði haldið áfram verði tekin síðar.

mbl.is