Sakaði ráðherrann um geðþóttaákvörðun

Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar.
Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Hér virðist vera, þannig að vægilega sé tekið til orða, um að ræða geðþóttastjórnsýslu. Ákvarðanir sem ráðherra, sem nýtur trausts og stuðnings á þessu þingi eða gerði það, tekur án þess að hafa ástæðu til, án þess að geta varið.“

Þetta sagði Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag um þá ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrr á þessu ári að fresta réttaráhrifum ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Vesturlands að banna sölu á hvalabjór á meðan málið væri til meðferðar í stjórnsýslunni.

Mörður fullyrti að Sigurður Ingi hefði enga ástæðu haft til þess að rifta ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins og vitnaði í því sambandi í umsagnir stofnunarinnar og Matvælastofnunar um ákvörðun ráðherrans.

„Ég fer fram á það að þingmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki þetta mál upp þegar úrskurðurinn hefur fallið sem ég efast ekki um hvernig verður því að engin rök standa til annars en að hann verði ráðherranum í óhag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina