Umsóknin verði dregin til baka

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálftsæðisflokksins.
Valhöll, höfuðstöðvar Sjálftsæðisflokksins. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti á fundi sínum í dag að umsóknin um inngöngu Íslands í Evrópusambandið yrði dregin til baka í samræmi við þingsályktunartillögu sem utanríkisráðherra myndi leggja fram á Alþingi. Þetta staðfestir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

„Niðurstaða þingflokksins er að þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að draga aðildarviðræðurnar til baka var samþykkt út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins,“ segir Ragnheiður. Spurð hvort niðurstaðan hafi verið einróma svarar hún: „Við erum ekkert vön að greina frá því hvernig það er. Hún er bara afgreidd út úr þingflokknum.“

Sama niðurstaða varð á þingflokksfundi Framsóknarflokksins sem fram fór í dag að sama skapi: „Þetta var samþykkt einróma út úr þingflokknum,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is.

mbl.is