Segir engin ormasmit á Dalsmynni

Bann var lagt á dreifingu hunda frá Dalsmynni fyrr í …
Bann var lagt á dreifingu hunda frá Dalsmynni fyrr í dag. Sigurgeir Sigurðsson

„Það er alltaf síðasta leiðin út úr aðstæðum að beita þvingunarúrræðum,“ segir Konráð Konráðsson, héraðsdýralæknir Suðvesturumdæmis hjá Matvælastofnun.

Stofnunin tilkynnti í dag að dreifing dýra Hundaræktarinnar ehf. frá Dalsmynni hefði verið stöðvuð og óheimilt væri því að afhenda dýr frá bænum þar til sýnt hefði verið fram á að kröfum Matvælastofnunar um úrbætur á aðbúnaði dýranna hefði verið sinnt og gripið hefði verið til nauðsynlegra aðgerða á hundabúinu til að halda niðri smiti af völdum þráðorma og annarra iðrasýkinga sem greinst hafa þar.

Alvarlegt að synja um aðgang

Eigendur Dalsmynnis synjuðu eftirlitsmönnum Matvælastofnunar um aðgang til eftirlits í eitt skipti og segir Konráð það vera alvarlegt frávik sem haft hafi áhrif á framvindu málsins. Ásta Sigurðardóttir, annar eigandi Dalsmynnis, segist hafa synjað eftirlitsmönnunum um aðgang sökum veikinda.

„Ég var rosalega veik daginn sem þær komu og ætluðu að skanna hundana til þess að vita hvort ég léti örmerkja þá. Þau hafa ábyggilega móðgast við mig, en ég var með svo mikla ælupest að ég stóð ekki í fæturna. Ég bað þær um að koma aftur á mánudeginum, en það gerðu þær ekki,“ segir Ásta.

Ormasmit á Dalsmynni?

Lirfur ormsins Strongyloides stercoralis greindust í saursýnum úr hundum á Dalsmynni hinn 29. október 2012, en sá ormur getur smitað bæði dýr og menn. Tímabundið bann við dreifingu var lagt á hinn 1. mars 2012 vegna smitsins og var því aflétt hinn 30. apríl 2012 þar sem engin merki um sýkingu höfðu fundist í sýnum sem tekin voru í tvígang í apríl 2012.

Konráð segir Matvælastofnun vita til þess að ormurinn hafi síðan þá komið upp á búinu miðað við tilteknar sýnatökur sem framkvæmdar voru í síðastliðnum ágúst. Þá segir í tilkynningu Matvælastofnunar að núverandi framkvæmd sótthreinsunar teljist ekki fullnægjandi m.t.t. þess smits sem áður hefur greinst á búinu.

Ásta þvertekur fyrir að ormasmit sé nú á Dalsmynni og sendi hún mbl.is niðurstöður úr rannsókn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum á saursýnum úr hundum Dalsmynnis því til stuðnings. Samkvæmt niðurstöðunum, sem dagsettar eru 10. mars síðastliðinn, kemur þar fram að ormalirfur hafi ekki fundist í neinu af saursýnunum sem tekin voru.

„Ég er núna búin að afhenda þeim þessu gögn. Við erum búin að sótthreinsa allt, mála og fara með sýni sem ekkert var í. Ég er fullviss um að þessu banni verði aflétt á næstunni,“ segir Ásta.

Hafa heimild til þess að fjarlægja dýrin

Í tilkynningu Matvælastofnunar kemur fram að til greina komi að beita frekari aðgerðum til að tryggja velferð hunda á búinu ef þörf krefur, en stofnunin hefur heimild í lögum til þess að krefjast þess að dýr verði fjarlægð úr aðstæðunum verði úrbætur ekki gerðar. Konráð segir aðstandendur Dalsmynnis þurfa að sýna fram á hvaða úrbætur verði gerðar og hvernig þær verði framkvæmdar til þess að dreifingarbanninu verði aflétt.

Sjá einnig: Stöðvar dreifingu hunda frá Dalsmynni

Ásta Sigurðardóttir, eigandi Dalsmynnis segir engin ormasmit vera í hundunum …
Ásta Sigurðardóttir, eigandi Dalsmynnis segir engin ormasmit vera í hundunum sínum. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert