Heppinn og ótrúlega þakklátur

Páll Sævar Guðjónsson tók við bikarnum sigurreifur á uppskeruhátíð Mottumars …
Páll Sævar Guðjónsson tók við bikarnum sigurreifur á uppskeruhátíð Mottumars í Hörpu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er bara hrærður yfir því að hafa náð, annað árið í röð, að safna yfir 1 milljón króna. Mér finnst það alveg magnað og góð tilfinning,“ segir Páll Sævar Guðjónsson sem í kvöld var krýndur Sigurvegari Mottumars í ár, en honum tókst að safna 1.069.000 kr. 

Páll segir sérstaklega ánægjulegt að finna mikinn meðbyr Mottumars fái með þjóðinni allri á hverju ári.

„Þetta er líka rosalega gaman og ótrúlega góð stemning í kringum þetta, en þetta er líka gott verkefni og nauðsynlegur þáttur í því að reyna að koma af stað rannsóknarvinnu og efla starf Krabbameinsfélagsins.“

Heilbrigður eftir erfiða baráttu

Sjálfur þekkir Páll starf Krabbameinsfélagsins af eigin raun, því hann greindist með krabbamein í ristli árið 2012, þá aðeins 42 ára gamall. „Ég fór í aðgerð og í gegnum mjög erfiða lyfjameðferð, sem lukkaðist vel og ég er heilbrigður í dag. Þannig að ég var heppinn og er ótrúlega þakklátur.

Páll tók þátt í Mottumars í fyrra og lenti í öðru sæti. Í ár ákvað hann að taka söfnunina á annað stig og skipulagði góðgerðaball fyrir gamla árganga úr Hagaskóla, eins og mbl.is hefur sagt frá.

Rífandi stemning og hamingja á góðgerðaballi

 Ballið er í kvöld og Páll býst við rífandi stemningu og mikilli hamingju, ekki síst þegar skólahljómsveitin Fyrirbærin stígur á stokk eftir áratuga hlé með Stefán Eiríksson, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, í forgrunni.

Ekki skemmir fyrir að hann geti mætti í hús með sjálfan bikarinn. „Ég ákvað að fara með þetta alla leið í ár og ég er þakklátur fólkinu sem mætir á ballið fyrir að gera þetta að veruleika,“ segir Páll.

Sjá einnig viðtal við Pál Sævar: Ekki sjálfgefið að fá að lifa

Söfnuðu í minningu sigurvegara síðasta árs

Í öðru sæti í Mottumars í ár varð Vilhjálmur Einarsson. Vilhjálmur var að taka þátt í fyrsta skipti, en hann safnaði mottu til minningar um pabba sinn, Einar Vilhjálmsson, og Jóhannes Jónsson, Jóa frænda, sem báðir létust úr krabbameini á síðasta ári. Vilhjálmi tókst að safna 726.500 kr til styrktar Krabbameinsfélaginu.

Pétur Jakob Pétursson lenti í þriðja sæti. Hann var einnig að taka þátt í fyrsta skipti og safnaði 690.119 kr til styrktar Krabbameinsfélaginu.

Í liðakeppninni hrepptu Vinir Villa fyrsta sætið. Það er hópur manna sem eru góðir vinir Vilhjálms Óla Valssonar, sigurvegara mottumars 2013, sem lést af völdum krabbameins þann 30. mars 2013. 

Þeir settu sér það markmið að safna sömu upphæð og Vilhjálmur vann með í Mottumars í fyrra, 1.639.000. kr. Með þátttöku sinni í keppninni í ár vildi þeir heiðra minningu góðs vinar með því að safna áheitum líkt og hann gerði allt fram á síðasta dag.

Kvennakórinn Graduale Nobili steig á stokk í Hörpu og söng …
Kvennakórinn Graduale Nobili steig á stokk í Hörpu og söng lagið Hraustir menn á uppskeruhátíð Mottumars í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Vinir Villa söfnuðu mestu í liðakeppninni.
Vinir Villa söfnuðu mestu í liðakeppninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert