Verkfall hjá kennurum í dag

Grunnskólabörn mæta ekki í skóla í dag þar sem verkfall …
Grunnskólabörn mæta ekki í skóla í dag þar sem verkfall grunnskólakennara stendur yfir í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Það verður engin kennsla í grunnskólum landsins í dag en fundi í kjaradeilu félags grunnskóla og sveitarfélaganna var að ljúka. Nýr fundur hefur verið boðaður klukkan 15, að sögn ríkissáttasemjara, Magnúsar Péturssonar.

Að sögn Ólafs Loftssonar, formanns Félags grunnskólakennara, er góður gangur í viðræðunum en ákveðið var að slíta fundi nú á sjötta tímanum enda ljóst að ekki næðist að semja áður en kennsla ætti að hefjast í grunnskólum landsins.

„Þetta þokast vel áfram og við erum búin að ljúka mörgum stórum málum en það á eftir að klára launaliðinn og það er það sem stendur útaf í augnablikinu. Við erum búin að sitja á fundi síðan á hádegi í gær og ljóst að við náum ekki að ljúka þessu áður en skólastarf hefst í dag,“ segir Ólafur en hann var staddur í húsnæði ríkissáttasemjara þegar mbl.is náði tali að honum skömmu fyrir klukkan sex í morgun.

Ólafur segir að ljóst hafi verið að ekki yrði lengra komist í þessari fundarlotu en samninganefndirnar hafa setið á fundi í tæpar átján klukkustundir. 

Félag grunnskólakennara hefur boðað vinnustöðvun dagana, 15., 21. og 27. maí hafi samningar ekki tekist.

Hverjir taka þátt í vinnustöðvun?

 •  Allir grunnskólakennarar, leiðbeinendur, náms- og starfsráðgjafar og aðrir þeir sem þiggja laun frá sveitarfélögum samkvæmt kjarasamningi KÍ/FG við sveitarfélög.

Hverjir taka ekki þátt í vinnustöðvun?

 •  Skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar sem þiggja laun samkvæmt kjarasamningi KÍ/SÍ.
 •  Starfsmenn skóla sem ekki sinna kennslu og ekki eru félagar í KÍ.
 •  Vakin er athygli á 2. mgr. í 18. grein laga nr. 94/1986 þar sem segir: „Þegar verkfall er löglega hafið er þeim sem það beinist gegn óheimilt að stuðla að því að afstýra því með aðstoð einstakra félagsmanna þess félags sem að verkfallinu stendur.“
 •  Störf og verk sem hafa verið á könnu félagsmanna í FG falla niður í verkfalli og öðrum starfsmönnum er óheimilt að ganga í þau.

 Viðvera

 •  Kennarar eiga ekki að vera við störf né nokkuð annað í skólahúsnæði meðan á vinnustöðvun stendur. Sama á við um allt rafrænt umhverfi skólanna, námsnet, samfélagsmiðla, tölvupóst og þess háttar.

Náms- og kennsluvefir

 •  Öll vinna félagsmanna FG við náms- og kennsluvefi er óheimil á meðan á vinnustöðvun stendur. Efni sem tilheyrir vinnustöðvunardögum skal ekki birtast nemendum.

Notkun tölvupósts stofnana

 •  Öll kennslu- og starfstengd notkun tölvupósts er óheimil meðan á vinnustöðvun stendur.

Félagsstörf nemenda

 •  Félagsstarfsemi sem fer fram með umsjón félagsmanna FG fellur niður í vinnustöðvun.

Ferðir með nemendum

 •  Dagsferðir nemenda í fylgd félagsmanna FG sem skipulagðar eru á vinnustöðvunardögum falla niður.

Staðgenglar

 •  Stjórnendum er óheimilt að kalla til staðgengla fyrir sig þótt þeir forfallist meðan á vinnustöðvun stendur enda staðgenglar þeirra ekki að störfum.

Skólahúsnæði

 •  Allt húsnæði, þar sem umsjónar og ábyrgðar félagsmanna FG er krafist, skal vera óaðgengilegt nemendum meðan á vinnustöðvun stendur.

Fjarkennsla/dreifkennsla

 •  Öll fjarkennsla/dreifkennsla á vegum skóla og í umsjón eða á ábyrgð félagsmanna FG, sem lagt hafa niður vinnu, fellur niður.

Breytingar á stundatöflu og verksviði

 •  Óheimilt er með öllu að færa til stundatöflur eða breyta vinnuskipulagi þeirra starfsmanna skóla sem ekki leggja niður störf.

Námskeið á vegum skóla

 •  Allt námskeiðahald á vegum skóla í umsjón eða á ábyrgð félagsmanna FG, sem lagt hafa niður störf, fellur niður.
mbl.is

Bloggað um fréttina